Komu í veg fyrir að þakjárn fyki inn á flugvöllinn
Vaskir félagar úr Björgunarsveitinni Suðurnes náðu að koma böndum á þakjárn sem fauk af fjölbýlishúsi við Lindarbraut á Ásbrú síðdegis og koma í veg fyrir að þakið myndi fjúka inn á flughlað Keflavíkurflugvallar.
Útkall barst viðbragsðaðilum á sjötta tímanum síðdegis að stór hluti af þaki fjölbýlishúss við Lindarbraut á Ásbrú hafði fokið í óveðrinu í dag. Þegar björgunarsveitarfólk kom á svæðið var veðrið alveg snælduvitlaust, sterkur vindur og lemjandi rigning.
Þakjárnið hafði að hluta stöðvast á ljósastaur við spennistöð á Breiðbraut. Járnið hafði þó einnig náð að fjúka lengra og var töluvert af járni komið langleiðina að flugvallargirðingunni þar sem Isavia rekur þjónustuhlið við austurhlað Keflavíkurflugvallar. Þar var annar hópur viðbragðsaðila af flugvellinum að fergja járnið.
Björgunarsveitarfólkið vann við erfiðar aðstæður síðdegis. Vindurinn var mikill og í þann mund sem gerði mikið eldingaveður barði rigningin á öllum af miklu afli.
Ljósmyndari Víkurfrétta myndaði aðgerðir á Ásbrú síðdegis.