Fréttir

Lýsir yfir ánægju með uppbyggingaráform í Ásbrúarhverfi
Sunnudagur 23. febrúar 2025 kl. 06:28

Lýsir yfir ánægju með uppbyggingaráform í Ásbrúarhverfi

Mikil uppbyggingnaráform eru fyrirhuguð á Ásbrú, eins og áður hefur verið greint frá hér í blaðinu. Fjórar vinnslutillögur vegna deiliskipulags voru til afgreiðslu á aukafundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, sem haldinn var á Ásbrú fyrir síðustu helgi.

Á Suðurbrautarreit er unnið að vinnslutillögu deiliskipulags á 3,3 ha. reit sem kenndur er við Suðurbraut 765. Þar er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum á þremur til fimm hæðum með allt að 300 íbúðum af fjölbreyttri gerð. Sérstakir byggingarreitir eru ætlaðir sérstakri notkun annarri en fyrir íbúðir, t.d. samkomuhús, garðskála o.fl.

Vinnslutillaga deiliskipulags fyrir Spítalareit sem afmarkast af Flugvallarbraut, Grænásbraut og Breiðbraut gerir ráð fyrir lágreistri tveggja til fjögurra hæða byggð fjölbýlishúsa sem mynda svokallaða randbyggð með allt að 250 íbúðum. Skipulagssvæðið er vel staðsett á Ásbrú og er hluti af tveimur hverfum samkvæmt rammaskipulagi, þ.e. í hjarta Ásbrúar og Offiserahverfinu svokallaða. Það er því mikilvægt að reiturinn uppbyggður verði sterkur tengipunktur mismunandi hverfahluta.

Þá var tekin fyrir vinnslutillaga deiliskipulags fyrir Breiðbrautarreit sem afmarkast af Lindar-, Grænás- og Breiðbraut. Nýjar byggingar skapa skjól fyrir ríkjandi áttum, norðan- og austanátt, en opnast að sama skapi til móts við suður og vestur. Þetta einfalda grunnstef tekur svo á sig ólíkar myndir þar sem það lagar sig að núverandi aðstæðum en með þessu móti tekst að skapa fjölbreytilegt byggðarmynstur með áhugaverðum sjónásum á milli ólíkra staða innan svæðisins.

Að lokum var tekin fyrir vinnslutillaga deiliskipulags fyrir Suðurbrekku, svæði sunnan við Skógarhverfi, austan Virkisbrautar að Flugvallarbraut. Byggingar verði ein til þrjár hæðir og blanda af sérbýli og fjölbýli með um 200 íbúðum alls af fjölbreyttri gerð. Markmiðið er að nýtt deiliskipulag á Suðurbrekkureit skapi heildstæða og hlýlega byggð einbýlishúsa, raðhúsa og lítilla fjölbýlishúsa.

Umhverfis- og skipulagsráð lýsir yfir ánægju með uppbyggingaráform í Ásbrúarhverfi, samantekt athugasemda verður lögð fram á næsta fundi og erindi því frestað.