Viðreisn
Viðreisn

Fréttir

Markús Ingólfur Eiríksson verður forstjóri HSS
Mánudagur 25. febrúar 2019 kl. 16:46

Markús Ingólfur Eiríksson verður forstjóri HSS

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Markús Ingólf Eiríksson forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að undangengnu mati lögskipaðrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. Skipað er í embættið til fimm ára, frá 1. mars næstkomandi. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.
 
Markús er með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og doktorspróf í endurskoðun með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja. Hann hefur frá árinu 2016 starfað hjá Ríkisendurskoðun sem sérfræðingur á stjórnsýslusviði. Áður starfaði hann hjá Ernst & Young Reykjavík, fyrst sem sérfræðingur í endurskoðun en síðan sem verkefnastjóri.
 
Í niðurstöðum hæfnisnefndar segir að Markús hafi yfirgripsmikla þekkingu á stjórnsýslu. Hann hafi í starfi sínu hjá Ríkisendurskoðun unnið að stjórnsýsluúttektum sem m.a. tengjast heilbrigðisþjónustunni, s.s. heilsugæslu á landsbyggðinni, Sjúkratryggingum íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og nýlega Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þess er einnig getið í niðurstöðu hæfnisnefndar að Markús hafi afar skýra sýn á áskoranir stofnunarinnar til skemmri og lengri tíma litið.
Viðreisn
Viðreisn