Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Fréttir

Mikill vilji til umbóta hjá HSS
Laugardagur 16. apríl 2022 kl. 10:44

Mikill vilji til umbóta hjá HSS

- segir Alma D. Möller, landlæknir

„Það er ánægjulegt að hér á HSS hefur verið tekið til hendinni og unnið að uppbyggingu á innviðum stofnunarinnar. Það er nauðsynlegt því mikil fólksfjölgun hefur orðið á svæðinu undanfarin ár sem kallar jú á aukna starfsemi og stærra húsnæði. Nú er komið að þeim tímamótum að fyrsti áfangi húsnæðisbreytinganna er tilbúinn sem er ný röntgendeild. Hún var flutt til að vera við hliðina á nýrri slysa- og bráðamóttöku en framkvæmdir við hana hefjast á næstu vikum,“ sagði Alma D. Möller, landlæknir, þegar ný röntgendeild var formlega opnuð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í síðustu viku.Landlæknir hvatti starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að halda áfram á þeirri vegferð að efla þjónustu HSS, gæði hennar og öryggi.

„Það hefur verið mótvindur hér og erfið umræða. Mig langar að segja það að það er mikill vilji til umbóta hjá stofnuninni. Það sé ég sem landlæknir því við höfum gert hér úttektir bæði á starfsemi heilsugæslu og legudeildar. Það er mín trú að hér verði aukin gæði og aukið öryggi sjúklinga. Svo má nefna það að það er afar mikilvægt að almenningur, þar með talið stjórnendur í sveitarfélögum og þingmenn taki utanum stofnunina og vinni með henni í þessari gæða- og umbótavegferð,“ segir Alma í viðtali við Víkurfréttir þegar hún er spurð út í umræðuna sem hefur verið mjög erfið um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í nokkuð langan tíma.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það eru ákveðin tímamót núna með umbótum á húsnæði og aðstöðu.

„Það er verið að endurbæta húsnæðið mjög og þetta er fyrsti áfangi að opna nýja og glæsilega röntgendeild. Síðan verður haldið áfram með bráðamóttöku og fleira. Þetta er afskaplega mikilvægt því húsnæði er mikilvægur þáttur starfsumhverfis og hér hefur vantað á mönnun, ekki síst lækna. Mínar vonir eru að þetta geri stofnunina eftirsóttari vinnustað.“

Margt hefur gengið á hérna í langan tíma. Hvaða leiðbeiningar hefur þú verið með til stofnunarinnar vegna þessa?

„Við höfum brýnt fyrir stofnuninni að ráðast í þær umbætur sem þarf, því við höfum greint bæði styrkleika og veikleika. Það er mikilvægast þegar erfið umræða kemur upp er að hlusta og líta inná við á hvað þurfi að laga og vinda sér í það. Ég sé að það er vilji til umbóta en umbætur eru ekki hristar fram úr erminni, þær taka tíma og í rauninni lýkur þeim aldrei. Mikilvægast er að hlusta og bregðast við eins og þarf.“

Nú gerðuð þið úttekt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hver var ykkar helsta niðurstaða í fáum orðum?

„Það er bara eins og víðast hvar í heilbrigðiskerfinu, það þarf að efla mönnun og það hjá flestum starfsstéttum og ég nefni sérstaklega lækna. Það þarf að efla teymisvinnu og almennt gæða- og öryggisstarf. Fleira mætti telja en þetta eru aðalatriðin.“

Ertu að segja að Suðurnesjamenn geti horft björtum augum til framtíðarinnar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja?

„Ég hef fulla trú á því að hér verði bætt þjónusta og það er mikilvægt. Við sjáum hvað íbúum hér hefur fjölgað og það er afar mikilvægt að bæta þjónustuna og stækka húsnæði eins og við erum að sjá hérna í dag.“

Er það ekki kostur fyrir stjórnvöld eða þá sem skaffa fjármunina að sjá sjúkrahúsin fyrir utan höfuðborgarsvæðið styrkjast til að bæta þjónustuna fyrir heimamenn og létta álagi af Landspítalanum?

„Jú, ég held að það sé afar mikilvægt. Við sjáum að það er gríðarlega mikið að gera á Landspítala og það er töluvert í nýjan spítala. Það er mikilvægt að nýta nágrannasjúkrahúsin sem allra best. Við höfum æfst mjög í slíku samstarfi í gegnum faraldurinn og ég sé ekkert annað en að slíkt samstarf haldi áfram.“