Fréttir

Mikilvægt að styrkja Keflavíkurflugvöll til framtíðar
Dr. Max Hirsh, framkvæmdastjóri Airport City Academy og Pálmi Randversson framkvæmdastjóri Kadeco kynntu áformin fyrir Páli Ketilssyni frá Víkurfréttum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 23. október 2020 kl. 09:15

Mikilvægt að styrkja Keflavíkurflugvöll til framtíðar

Keflavíkurflugvöllur er vaxtarvél fyrir Ísland, segir sérfræðingur á sviði byggðaþróunar við flugvelli

„Keflavíkurflugvöllur er vaxtarvél fyrir íslenskt efnahagslíf þar sem 2% vinnuafl landsins starfar og síðastlin tíu ár hefur byggðin í kringum flugvöllinn verið mesta vaxtarsvæði landsins. Því er mikilvægt að styrkja hann með nýjum leiðum, ekki bara í tengslum við flug og flugþjónustu heldur fyrir þjóðarhag til framtíðar,“ segir Dr. Max Hirsh, framkvæmdastjóri Airport City Academy og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar við flugvelli. Hann starfar nú fyrir Kadeco að framtíðarskipulagi umhverfis við Keflavíkurflugvöll.

Max segir að augljóslega séum við að takast á við ýmsar áskoranir í fluginu vegna Covid-19 í heiminum öllum. Flugvallarsvæði munu þurfa að auka fjölbreytni í möguleikum sínum í tekjuöflun. Ekki bara að huga að ferðamanninum heldur margs konar vöruflutningum og þjónustu. „Ég sé mikla möguleika fyrir svæðið hér á Suðurnesjum til að auka þann þátt og hugsa um svæðið sem flutningamiðstöð. Þá er líka mikilvægt að skoða í samhengi flutninga á sjó. Nú er ástandið þannig að fólk er nánast hætt að ferðast milli landa en vörur þurfa enn að ferðast og jafnvel enn frekar.“ Max segir að tilraunir með vöruflutninga með drónum hafi gefist vel, t.d. í Kanada, og það sé mjög spennandi nýjung sem gæti skapað mikla möguleika hér á landi.

Að sögn Max er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og að horft sé til meiri sjálfbærni, ekki síst með tilliti til að minnsta kosti fjögurra áfalla sem Suðurnesjasvæðið hefur mátt þola á undanförnum rúmum áratug; brottför Varnarliðsins, bankahrun, fall Wow air og nú síðast Covid-19. Sjálfbær nálgun á efnahagsþróun sé mikilvæg.

„Það er mikilvægt að öll eggin séu ekki í sömu körfu. Keflavíkurflugvöllur er mikilvæg miðstöð sem stuðlar að hagvexti um allt Ísland. Hvernig er líka hægt að gera þetta svæði eftirsóttara til búsetu, atvinnu og ferðamennsku með fjölbreyttara atvinnulífi? Lærdómur frá fyrri áföllum er m.a. sá að fyrsta sem ferðamaðurinn sparar við sig þegar herðir að eru eigin ferðalög,“ segir Max.

Max í samvinnu við fleiri sérfræðinga hér á landi segir að meðal verkefna í framtíðarvinnunni sé að búa til þróunaráætlun til lengri tíma. „Á næsta ári verður sett á laggirnar hugmyndasamkeppni um hönnun og framtíðaráætlun á landi umhverfis Keflavíkurflugvöll og nú erum við í þeirri undirbúningsvinnu, þ.e. að vinna gögnin fyrir samkeppnina.“

Auk Kadeco koma fleiri stórir aðilar að skipulagsvinnunni, Isavia, Reykjanesbær og Suðurnesjabær. „Það skiptir máli að sameinast um þessa skipulagsvinnu og vinna hana saman. Það gera sér allir grein fyrir mikilvægi þess að vinna saman að þessu verkefni.“

Max segir að samstarf við höfuðborgina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sé einnig mikilvægt, með tilliti til marga þátta, m.a. Borgarlínu.

„Ef við berum saman Keflavíkurflugvöll við aðra flugvelli í heiminum þá eruð þið með mikið landsvæði en fáa íbúa. Ég held því miður að árið 2021 verði jafnvel enn erfiðara en 2020 og því er mikilvægt að Keflavíkurflugvöllur nái að undirbúa sig sem best fyrir nýjar áskoranir og verkefni og hvernig hann getur aðlagast í breyttum heimi.“

Flokkun mismunandi svæða Kadeco auk sveitarfélagamarka.