Heklan
Heklan

Fréttir

  • Minnisvarði um látna á Miðnesheiði
    Sigurður Eiríksson og Guðmundur Sigurbergsson við Grímsvörðu á Miðnesheiði. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
  • Minnisvarði um látna á Miðnesheiði
    Guðmundur Sigurbergsson kveikir á kertum við vörðuna í morgun.
Þriðjudagur 23. desember 2014 kl. 11:55

Minnisvarði um látna á Miðnesheiði

– Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins.

Grímsvarða hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Varðan var afhjúpuð nú áðan en það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.

Ekki er nema rétt mánuður síðan rúmlega fertugur karlmaður varð úti á Miðnesheiði.





Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu fyrir réttu ári síðan.