Njarðvíkurskóli í þrívídd
Hermann Valsson, fyrrum nemandi í Njarðvíkurskóla, réðst í það viðamikla verkefni síðasta haust að taka myndir af skólanum í þrívídd og með því móti mun fólk geta gengið um ganga skólans með aðstoð tækninnar. Þannig fá til dæmis verðandi nemendur tækifæri til þess að skoða og kynnast skólanum áður en þeir stíga fæti inn í hann.
Ný tækni býður upp á stafrænt aðgengi
Þrívíddarskönnunin var mikið verk og það tók Hermann langan tíma að fara um alla ganga og stofur Njarðvíkurskóla ásamt öðrum byggingum sem tilheyra skólanum, svo sem Ösp, Brekku, Björk og Ljónagryfjuna.
Hermann segir að með þessu verki voni hann að það verði ekki einungis börn og foreldrar sem geti nýtt sér þetta heldur geti allt samfélagið farið um skólann og fengið innsýn í hvernig Njarðvíkurskóli lítur út og séð eitthvað af því fjölbreytta skólastarfi sem fer þar fram. Þrívíddarmódelið af skólanum mun vera aðgengilegt á heimasíðu Njarðvíkurskóla.
„Með þessari tækni getum við boðið nýjum nemum og aðstandendum þeirra að koma í stafræna heimsókn til að kynnast skólanum áður en þeir hefja námið sitt,“ segir Hermann en áður en börnin koma til námsins geta þau „gengið“ um skólann með hjálp síma, lesbrettis eða tölvu með foreldrum sínum eða öðrum aðstandendum. Þannig geta þau kynnst skólanum, byggt upp traust og þekkingu á honum og minnkað kvíðann fyrir því hvað sé framundan þegar fyrstu skrefin verða stigin þar í raunheimi.
„Sama á við um nýtt starfsfólk Njarðvíkurskóla og þá sem þurfa að sinna viðhaldi, hönnun og öðru sem lýtur að skólanum út frá sjónarhorni Reykjanesbæjar. Einnig má nefna útsvarsgreiðendur til að þeir geti komið í heimsókn til að skoða í hvað útsvar þeirra er að fara, marga aðra og mörg önnur verkefni má nefna en látum þetta duga.“
Þessi nýja tækni hefur verið notuð hérlendis við myndatökur fyrir fasteignasölur en þetta er í fyrsta skipti sem grunnskóli er skannaður í heild sinni. Hermann bendir á að skólakerfið hafi gengið í gegnum stöðuga þróun og breytingar í gegnum tíðina. „Núna er það að gerast á hraða sem við höfum ekki upplifað áður. Við þurfum aðeins að horfa til stöðunnar þegar Njarðvíkurskóli var stofnaður í kjallara að Bjargi í Ytri-Njarðvík árið 1942 og til dagsins í dag,“ sagði Hermann en hér að neðan má sjá tengla á önnur verkefni sem hann hefur unnið með þessari tækni.
Vann verkið til minningar um hjónin að Bjargi í Ytri-NjarðvíkSkönnunarverk þetta vann Hermann og hefur gefið til Njarðvíkurskóla til minningar um móðurafa sinn og -ömmu, hjónin Karvel Ögmundsson, útgerðarmann, og Önnu Margréti Olgeirsdóttur, sem bjuggu að Bjargi í Ytri-Njarðvík en þar hóf skólinn starfsemi sína árið 1942. |
Hér má sjá Njarðvíkurskólann í þrívídd.
Hér má sjá Ösp í þrívídd.
Önnur verk:
Hér má sjá Dómkirkjuna í þrívídd.
Hér má sjá MR, Menntaskólann í Reykjavík.
Hér má sjá MA, Menntaskólann á Akureyri.
Hér má sjá Dimmuborgir í Mývatnssveit.
Hér má sjá útskriftasýningu BA nema við Listaháskóla Íslands vorið 2024.
Hér má sjá Leikskólinn Sunnuás í Reykjavík sem unnið var fyrir TerraEiningar.
Hér má sjá skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum sem var unnið fyrir F.Í.