Sátt um samkomulagið í Hljómahöll
Það gekk á ýmsu þegar síðasti fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fór fram í Merkinesi í Hljómahöll í upphafi þessarar viku. Þar skaut minnihluti sjálfstæðismanna föstum skotum á meirihlutann í sambandi við framkvæmdina á flutningi Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll og þá hefur talsvert borið á þessari umræðu á samfélagsmiðlum að undanförnu. Víkurfréttir fengu Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, starfandi bæjarstjóra og fulltrúa bæjarráðs í framkvæmdahópi verkefnisins, og Sverri Bergmann Magnússon, fulltrúa Samfylkingar í bæjarstjórn, til að ræða um stöðuna á þessu verkefni en þau hafa fengið viðurnefnið Bókasafnsmeirihlutinn.
Á bæjarstjórnarfundinum tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) til máls undir liðnum Hljómahöll - geymsluhúsnæði og setti fram bókun þar sem megininntakið var að framkvæmdin væri illa ígrunduð og að þau í Sjálfstæðisflokknum hafi ítrekað bent á að vinna þurfi betur að ákvörðun og undirbúningi flutning bókasafnsins í Hljómahöll.
Aðsend grein sjálfstæðismanna í bæjarstjórn má lesa hér en hún er nánast orðrétt eins og bókun þeirra hljóðaði.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi skaut minnihluti sjálfstæðismanna föstum skotum á flutning bókasafnsins í Hljómahöllina, á framkvæmdir og það sem hefur miður farið. Hvað viljið þið segja um þetta mál?
„Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt og kannski sérstaklega leiðinlegt því þarna er verið að etja saman ólíkum starfstöðvum sveitarfélagsins inn í umræðuna,“ segir Halldóra Fríða. „Málið sem var til afgreiðslu var grenndarkynning á geymsluhúsnæði á lóð Hljómahallar sem var sett fram sem mikilvægt atriði í framkvæmdunum og því er hafnað eftir andmæli íbúa við nákvæmlega þeirri útfærslu sem þarna var lögð fram. Og þá hefst bara önnur atburðarás í kjölfarið. Í upphafi er það bæjarráð sem samþykkir verkefnið og það er svo staðfest í bæjarstjórn sem afhendir svo eignaumsýslunni framkvæmdina. Þar fer boltinn aftur að snúast strax og haft er samband við arkitektana sem við erum að vinna með og þau koma með aðra lausn sem er ennþá betri og húsinu til mikils sóma.“
Margrét A. Sanders (D) tók einnig til máls undir sama lið á fundinum og var ekki sátt: „Er þetta vel undirbúið? Að mínu mati ekki og það er það sem við vorum að leggja mesta áherslu á í okkar málflutningi, auðvitað er það eitt, við erum ekki sammála þessu. Vildum vildum halda Hljómahöllinni. Við vildum hafa stórkostlegt Hljómahallarhús með tengdum músíkhlutum og tónlistarhlutum. Það var okkar framtíðarsýn og töldum að Rokksafnið þurfti að vinna miklu betur með það og fá meira í markaðssetningu. Það voru mikil vonbrigði að okkar frábæri tónlistarmaður, Sverrir Bergmann, sem er í meirihluta, hefur verið mikið í forsvari með að draga úr þessu og koma bókasafninu þarna inn. Af því að maður hafði einhvern veginn þá sýn að tónlistarmennirnir okkar væru þarna á bak við.“
Sverrir, Margrét hefur haldið að þarna hefði hún fundið hauk í horni en þér var ekki skemmt.
„Mér fannst nú svolítið ófaglegt að vera að draga hina vinnuna mína inn í þetta,“ segir Sverrir. „Maður situr náttúrulega þarna sem bæjarfulltrúi og á að vera ávarpaður sem slíkur – en ég er fyllilega á bak við þessa ákvörðun og mér finnst tækifærin vera mikil og mörg. Nýtingin á húsinu, staðsetningin á húsinu og þörfin í bænum fyrir það sem kemur þarna inn í húsið er mikil. Mér finnst að verið sé að öskra eftir fleiri viðburðum, meiri lifandi menningu.“
Allir forstöðumenn eru sáttir með samkomulagið sem liggur fyrir
„Síðasti fundur í framkvæmdahópnum var haldinn í gær [þ.e. fimmtudag] sem lauk þannig að allir forstöðumenn eru sáttir með samkomulagið sem liggur fyrir og fékk ég heimild til að koma því á framfæri og þar voru einnig sviðsstjórar þeirra stofnana sem munu starfa saman í Hljómahöll og þau standa á bak við þau orð sem ég kem hér með á framfæri og styðja við verkefnið,“ segir Halldóra Fríða sem situr sem fulltrúi bæjarráðs í framkvæmdahópi verkefnisins. Hún segir að á fundinum hafi verið farið yfir nýjar teikningar frá arkitektum um viðbyggingu sem er húsinu til sóma og öllum líst vel á, „... og ég er viss um að íbúar í nágrenninu verða líka mun ánægðari með þá tillögu en þá sem var grenndarkynnt í fyrstu.“
Halldóra Fríða segir að farið hafi verið yfir lokateikningar á þeim þáttum sem var verið að vinna í varðandi innra skipulag, sem sneri helst að tilfærslu á léttum veggjum á skrifstofugangi tónlistarskólans þar sem tvær einkaskrifstofur verði minnkaðar en þær voru mjög stórar fyrir. Afgreiðsla eða móttaka skólans verður lítillega minnkuð og þá kemur inn ný 30 fermetra vinnuaðstaða fyrir kennara í tónlistarskólanum og því þarf ekki að hafa það rými utandyra eins og fyrstu tillögur höfðu gert ráð fyrir. Lítil skrifstofa forstöðumanns bókasafns kemst þá líka þar fyrir auk vinnurýmis fyrir starfsfólk bókasafnsins.
„Forstöðumönnum leist vel á þetta skipulag og samþykktu,“ segir hún og bætir við: „Við ræddum líka annað skipulag eins og bókanir á rýmum, aðgangsmál, opnunartíma og fleira sem þarf eðlilega að gera þegar um sambúð er að ræða og sú vinna gengur líka mjög vel.
Hljómahöll mun að sjálfsögðu halda áfram að sjá um allar bókanir í Berg og Stapa – tónlistarskólinn hefur áfram allan þann aðgang sem hann hefur haft að Bergi. Stapi og Berg halda sinni frábæru starfsemi áfram og við munum halda stóra og glæsilega viðburði og samkomur í húsinu eins og áður enda eru húsgögn og hillur teiknuð inn í rýmin og smíðuð út frá því að auðvelt sé að færa þau til þegar um þessa allra stærstu viðburði er að ræða.“
Þjónusta við nemendur ekki skert
Halldóra sagði jafnframt að nemendur tónlistarskólans muni áfram geta nýtt sér aðstöðu til æfinga og geta bókað rými innan skólans utan kennslutíma. „Það getur t.d. verið yfir daginn, seinni parta, kvöld og um helgar eftir stundatöflum kennslustofa og mun starfsfólk tónlistarskóla sjá um útfærslu á því en mér skilst að það verði fleiri en tvær stofur sem koma til greina í þeim efnum. En við treystum starfsfólki skólans auðvitað best til að ákveða verklag þeirra varðandi það enda hafa þau mestu yfirsýnina.
Varðandi Rokksafnið þá er spennandi vinna þar í gangi sem framkvæmdastjóri Hljómahallar hefur rætt m.a. hér í Víkurfréttum og hlökkum við til að sjá nýja og uppfærða sýningu með öllum þeim tækifærum sem þar skapast til að halda áfram að segja sögu tónlistarinnar sem er okkur öllum svo mikilvæg.
Við lögðum á það áherslu að mikilvægt væri að starfsfólk allra stofnana og foreldrar í tónlistarskólanum myndu fá skýrar upplýsingar um verkefnið svo að það væri ekki upplýsingaóreiða.
Margt er sagt og skrifað á miðla þar sem mjög frjálslega er farið með sannleikann og það veldur óánægju og óöryggi sem er alger óþarfi. Það er mikilvægt að við sem höfum eða getum aflað réttra upplýsinga gerum það og segjum satt og rétt frá.
Kjörnir fulltrúar eiga að segja satt en ekki skálda eitthvað upp sem hentar hverju sinni til að skapa óvissu og sundrung milli íbúa, starfsfólks og stofnana,“ sagði Halldóra Fríða að lokum en nánar verður farið í saumana á stóra Hljómahallarmálinu með þeim Halldóru Fríðu og Sverri Bergmann í næsta tölublaði Víkurfrétta.