Fréttir

Opnunartímum á jarðvegslosunarsvæði Reykjanesbæjar stýrt með hliði
Fimmtudagur 6. október 2022 kl. 09:09

Opnunartímum á jarðvegslosunarsvæði Reykjanesbæjar stýrt með hliði

Vegna slæmrar umgengni á og við jarðefnalosunarsvæði uppi á Stapa þarf Reykjanesbær að setja upp læst hlið og setja á skilgreinda opnunartíma.

Á svæðið má eingöngu losa  ómengaðan jarðveg s.s. grjót, möl, sand, mold og leir. Þá má einnig losa steinefni svo sem steypubrot, hellur og rör. Íbúar og lögaðilar hafa ítrekað hafa losað sig við úrgang sem óheimilt er að losa á svæðinu svo sem timbur, málma, gler, flísar, postulín, plastefni, dýraúrgang, úr rotþróm og ferðasalernum. Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, segir að breytingin á opnunartímanum sé gerð af algjörri nauðsyn.

„Við höfum margoft fengið réttmætar ábendingar frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um úrgang á þessu svæði sem ekki á heima þar og við höfum þurft að fjarlægja með tilheyrandi kostnaði. Við höfum til að mynda undanfarna mánuði fjarlægt um 30 tonn af úrgangi sem við höfum þurft að farga í Kölku.“

„Það hefur þótt kostur að hafa þetta svæði opið allan sólarhringinn fyrir verktaka sem eru að vinna í jarðvinnu í Reykjanesbæ og þurfa þá ekki að vera háðir opnunartímum en því miður þurfum við að fara þessa leið,“ segir Guðlaugur en opnunartímar verða framvegis frá kl. 8:00 til 17:00 virka daga en laugardaga frá kl. 8:00 til 14:00.

„Við biðlum til allra sem þurfa losa sig annað en ómengaðan jarðveg og steinefni að fara með það í Kölku þar sem annað efni á ekki heima á jarðefnalosunarsvæði og auðvitað hvetjum við íbúa að flokka úrgang og nýta grenndargámana sem eru víðsvegar um bæinn og á eftir að fjölga. Við vonum að þessi aðgerð dugi og við þurfum ekki að fara í frekari aðgerðir en rætt hefur verið um að vakta svæðið með starfsmönnum eða myndavélum.“