Rokkveislan mikla verður frumsýnd 25. september
-tvær sýningar laugardaginn 26. september
„Við stefnum ótrauð á að frumsýna „Rokkveisluna miklu“ föstudaginn 25.september n.k. kl 20 í Stapa. Rýmkun á fjöldatakmörkunum úr 100 manns í 200 gerir okkur kleift að halda ótrauð áfram,“ segir Kristján Jóhannson Blikari í samtali við Víkurfréttir.
„Þá er einnig mögulegt að skipta Stapa í tvo sóttvarnarhólf ef því er að skipta og það verður nánar útfært með Tómasi Young og hans fólki í Hljómahöllinni. En við hlýtum fyrirmælum og reglum frá landlækni í hvívetna. Aðalatriðið er að við erum á fullu og allir hrikalega spenntir. Söngvarar, hljóðfæraleikarar og allir sem koma að þessum tónleikum,“ segir Kristán ennfremur.
„Ástandið hjá tónlistarfólki og tæknimönnum hefur verið vægast sagt hörmulegt síðustu mánuði. Það eru allir áður auglýstir söngvarar með, Stefanía Svavars, Matti Matt, Stebbi Jak og Dagur Sig. Það er uppsöfnuð spenna bæði hjá listamönnunum og líka hjá tónleikagestum. Þetta verður eitthvað,“ segir Kristján.
„Þegar ljóst var að við gætum ekki sýnt á Ljósanótt, eins og við höfum gert undanfarin níu ár, kom smá blús í hópinn. En með bjartsýni og biðlund og nú tillögu sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra um rýmkun reglna, þá kýlum við á þetta. Vonandi að hún fari að tillögum hans, hún hefur gert það fram að þessu“.
Rokkveislan mikla verður eins og áður segir frumsýnd 25. september þá gilda miðar sem áður voru keyptir á sýninguna sem augýst var 2. september. Seinni tvær sýningarnar verða 26.september og þá gilda miðar sem keyptir voru á sýningar sem fyrirhugaðar voru sunnudaginn 6. september.
Enn eru lausir miðar en miðasala er á Tix.is og Hljómahöll.is
„Það var búið að selja vel af miðum. Það er nánast uppselt á frumsýningu þannig að nú gildir að vera snöggur að tryggja sér miða á Rokkveisluna miklu. Ég lofa svaka stuði,“ segir Kristján að lokum.