Rússinn Orlik er samfélagsvandamál í Njarðvík
- átti að rífa í brotajárn í Helguvíkurhöfn
Hinn rússneski Orlik er í eigu Hringrásar en fyrirtækið ætlaði að rífa skipið í brotajárn líkt og það gerði með gamla varðskipið Þór og flutningaskipið Fernanda sem varð eldi að bráð. Hins vegar kom babb í bátinn þar sem skipið inniheldur bæði spilliefni og asbest og því fékkst ekki leyfi til þess að fleyta skipinu upp í fjöru í Helguvík og rífa það þar.
Skipið hefur einnig verið vinsælt leiksvæði ungmenna og jafnvel hefur fullorðið fólk verið að flækjast um skipið undir áhrifum áfengis. Nágrannar Njarðvíkurhafnar hafa látið heyra í sér á samfélagsmiðlum og vilja skipið burt, enda engin prýði af því og þá stafar af því slysahætta. Togarinn er því ekki bara vandamál hafnarinnar, hann er samfélagsvandamál sem þarf að leysa.
Hjá Reykjaneshöfn fengust þær upplýsingar að ítrekað hafi verið haft samband við eigendur skipsins, bæði símleiðis og einnig með tölvupóstum, með það að markmiði að koma skipinu burt. Vegna uppbyggingar í Helguvík fer að vera síðasti séns að nota hafnarsvæðið til að rífa skipið. Áður þarf hins vegar að losa spilliefni úr því og fjarlægja asbest. Það væri hægt að gera við bryggju í Njarðvík en þyrfti þá heimild heilbrigðisyfirvalda. Til að bæta gráu ofan á svart þá er heimsmarkaðsverð á brotajárni lágt um þessar mundir og því ekki mikið upp úr því að hafa að rífa skip eins og Orlik í brotajárn.