Optical Studio
Optical Studio

Fréttir

Samið um byggingu 150 íbúða á Ásbrú
Fulltrúar Stofnhúss, Kadeco og Reykjanesbæjar taka höndum saman eftir undirritun samnings um uppbyggingu á Suðurreitarbraut á Ásbrú. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 17. júlí 2024 kl. 16:10

Samið um byggingu 150 íbúða á Ásbrú

Fyrsta húsnæðisuppbyggingin á Ásbrú eftir brotthvarf Varnarliðsins

Kadeco (Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar), Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús skrifuðu undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðarbyggðar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú. Um er að ræða fyrstu húsnæðisuppbyggingu á Ásbrú eftir brotthvarf Bandaríkjahers.

Reiturinn er miðsvæðis á Ásbrú, um 33 þúsund fermetrar að flatarmáli og kveður samningurinn á um að á reitnum verði byggðar að lágmarki 150 íbúðir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samið var um að Stofnhús myndi greiða Kadeco 150 milljónir króna fyrir byggingarréttinn og mun Reykjanesbær m.a. koma að uppbyggingu nýrra gatna í tengslum við verkefnið.

Deiliskipulag um svæðið verður gert á grunni nýs rammaskipulags fyrir Ásbrú þar sem gert er ráð fyrir lágreistri en fjölbreyttri byggð fjölbýlishúsa í anda þess byggðamynsturs sem fyrir er á svæðinu. Áhersla er m.a. á blágrænar ofanvatnslausnir og grænt og barnvænt umhverfi. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag fyrir reitinn verði kynnt og auglýst næsta vetur og þess er vænst að uppbygging geti hafist fljótlega í kjölfarið.

Jónas Halldórsson, forstjóri Stofnhúss, Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, undirrita samninginn.

Með þessum samningi er brotið blað í sögu Ásbrúar en um er að ræða fyrstu uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á svæðinu frá því að varnarliðið yfirgaf svæðið árið 2006. Verið er að taka stórt skref í skipulagsmálum í Reykjanesbæ en samkvæmt aðalskipulagi er Ásbrú helsta uppbyggingarsvæði bæjarins á komandi árum. Í nýju rammaskipulagi Ásbrúar, sem nú er í auglýsingu, er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi upp í allt að fjórtán þúsund til ársins 2050 en það er álíka og íbúafjöldi Mosfellsbæjar í dag.

„Þessi samningur er mikið fagnaðarefni en með honum er stigið stórt skref í uppbyggingu á Ásbrú. Áætlanir um framtíðaruppbyggingu á svæðinu eru mjög metnaðarfullar enda höfum við fundið fyrir miklum áhuga úr ýmsum áttum á svæðinu og það er einstaklega ánægjulegt að við getum lagt okkar að mörkum í framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Mikil þörf er á íbúðarhúsnæði á Reykjanesi og með þessari þróun eykst einnig grundvöllur fyrir ýmis konar þjónustu á svæðinu,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.

Uppbygging á Ásbrú er liður í nýrri  þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, K64, þar sem horft er fram til ársins 2050. Þróunaráætlunin er heildstæð sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll á ákveðnum þróunarsvæðum sem saman mynda vistkerfi sem einkennist af samvinnu og sambúð iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar.

Skissuteikning af fyrirhuguðum byggingarreit, Suðurbrautarreit á Ásbrú. Teikning/Alta ráðgjöf