Skemmtilegast er að sjá styrkupphæðina vaxa
Sautján málefni fengu stuðning frá Góðgerðarfest Blue að þessu sinni en styrkjum var úthlutað í síðustu viku. Samtals var var úthlutað tuttugu og fimm milljónum króna. Í viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta sagði Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Blue Car Rental, að það væri skemmtilegast að sjá styrkhæðina vaxa og vaxa. Viðburðurinn væri heldur betur búinn að vinda upp á sig og fyrirtækjunum sem taka þátt í verkefninu fjölgar.
Þið toppið ykkur á hverju ári. Hvað var þetta mikið í ár?
„Það söfnuðust tuttugu og fimm milljónir sem fara í sautján málefni. Við gætum ekki verið stoltari. Við toppum okkur á hverju ári og að sjálfsögðu ætlum við að gera það á næsta ári líka. Við erum í dag komin í 72-73 milljónir króna frá upphafi og stefnum á 100 milljónir, þannig að við verðum að gera betur á næsta ári. Hundrað milljónir á fjórum árum væri alveg geggjað.“
Hvar náið þið í þessa aura?
„Frá fyrirtækjum sem við erum að vinna með, sem trúa á það sem við erum að gera og treysta því sem við stöndum fyrir með Góðgerðarfestinu. Við leggjum okkur fram í því að láta vita hvert styrkirnir fara og hvernig þeir eru að nýtast. Við viljum tala um þetta því styrkirnir eru að fara á frábæra staði og nýtast frábærlega. Þegar fleiri sjá og vita þetta þá eykst styrkupphæðin. Við erum bara að vekja athygli á málefnunum og láta gott af okkur leiða í mikilli samvinnu við þá sem við vinnum náið með.“
Þau félög og starfsemi sem hefur verið að fá styrki frá Góðgerðarfesti Blue eru meira og minna í nærsamfélaginu á Suðurnesjum.
„Við höfum vandað okkur í ferlinu þannig að hver einasta króna er að fara í góð málefni,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson hjá Blue Car Rental. Hann segir hópinn stoltan af verkefninu og þegar sé farið að leggja drög að næsta ári.