Stærsti hraðhleðslugarður á Íslandi opnar á Aðaltorgi
Öflugasta hraðhleðslufyrirtæki í Bretlandi í samvinnu við HS Orku setur upp tuttugu hraðhleðslustöðvar á Aðaltorgi og 200 á landinu.
Stærsti hraðhleðslugarður á Íslandi með tuttugu hraðhleðslustöðvum verður settur upp á Aðaltorgi í Reykjanesbæ og opnar í vor í byrjun apríl. InstaVolt, öflugasta hraðhleðslufyrirtæki Bretlands stefnir að því, í samstarfi við HS Orku, að setja upp um tvöhundruð hleðslustöðvar á Íslandi á næstu þremur árum. Fyrstu stöðvarnar verða settar upp og gangsettar á Aðaltorgi.
„Þetta boðra byltingu og breytta hugsun í hvernig við nálgumst þetta verkefni, að byggja upp innviði vegna orkuskipta á Íslandi þar sem að upphafleg fjárfesting er hugsuð til margra ára og fyrirsjáanlegrar aukningar en ekki bara núverandi þörf. Að setja niður fyrstu stöðvarnar á Aðaltorgi var eðlilegt skref þar sem HS Orka er innlendur samstarfsaðili InstaVolt. Sú vinna sem Aðaltorg hafið unnið áður einfaldaði ferlið mjög en það er almennt frekar flókið. Velvilji frá Reykjanesbæ og HS Veitum skipti höfuðmáli í að koma þessu verkefni af stað. Búið er að skrifa undir alla samninga, við Aðaltorg, HS Veitur, jarðverktaka og rafverktaka. Verkið er hafið og verður unnið hratt,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku.
Að sögn Jóhanns leggja forráðamenn InstaVolt áherslu á að vinna með heimamönnum, hvort sem er verktökum eða öðrum. „InstaVolt er öflugasta hraðhleðslufyrirtæki Bretlands, með yfir 1.000 stöðvar víðs vegar um Bretland. Fyrirtækið leggur áherslu á að bjóða upp á auðvelt aðgengi að stöðvum þar sem hver sem er getur mætt og greitt fyrir hleðsluna með greiðslukorti. Ekki þarf að nota sérstaka greiðslulykla. Þetta er einfalt og þægilegt „tap and go“. InstaVolt einokar í raun öll verðlaun um bestu hraðhleðslu-netin í Bretlandi, enda er svokallaður uppitími stöðva 99,5%. Það sinnir miklu viðhaldi á sínum stöðvum og hafa öflugt eftirlit með þeim ef eitthvað klikkar. Þá er þetta hugsað þannig að aldrei þurfi að bíða eftir hleðslu með að setja niður margar stöðvar á hverjum stað. Því ætti ekki að þurfa áhyggjur af því að þurfa að bíða eins og algengt er.
„HS Orka er mjög stolt af samstarfi sínu við InstaVolt en Bretarnir leggja áherslu á að staðsetja sig við þjónustustöðvar til að fólk hafi eitthvað að gera meðan bíllinn er hlaðinn. Sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað og framtíðaruppbygging á Aðaltorgi var klárlega ein forsenda fyrir því að það varð fyrir valinu sem fyrsti hleðslugarður InstaVolt á Íslandi. Þá er staðsetningin við Reykjanesbrautina og nálægðin við flugvöllinn algerlega frábær,“ segir Jóhann.
Ingvar Eyfjörð hjá Aðaltorgi segir það mjög ánægjulegt að þessi stóru skref í orkuskiptum séu tekin á Suðurnesjum. „Við hjá Aðaltorgi erum einstaklega ánægð með samstarfið við HS Orku og Instavolt en hraðhleðslugarðurinn er hluti af uppbyggingu Aðaltorgs á þjónustu við nærumhverfi Keflavíkurflugvallar. Rafbílaeigendur og -leigjendur geta nú, samfara því að hlaða bílana sína, nýtt sér þjónustuna sem í boði er á Aðaltorgi. Þegar hafa Optikk Reykjanes og Hárgreiðslustofan Draumahár hafið starfsemi ásamt veitingastaðnum The Bridge og Courtyard by Marriott hótelinu en ráðgert er að Lyfjaval opni bílaapótek í mars ásamt veitingastaðnum Langbest. Áfram verður unnið að frekari uppbyggingu með auknu þjónustuframboði fyrir heimamenn og gesti okkar,“ segir Ingvar.