Talsvert magn kviku á ferðinni
Merki frá aflögunarmælum eru sterkari en sést hafa í síðustu atburðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það sýnir að talsvert magn kviku er á ferðinni.
Merkin sem sjást sýna að kvikan er að hreyfa sig bæði til norðausturs en einnig í suður í átt að Grindavík. Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða um hvar kvikan muni koma upp, en færslan á aflögunarmerkjum til suðurs sáust til að mynda ekki í eldgosinu sem hófst í nóvember 2024.
Viðbragðsaðilar í Grindavík segjast finna fyrir jarðskjálftum í bænum og þar sjást einnig merki um aflögun og því mögulegt að sprunguhreyfingar geti átt sér stað innan bæjarins, segir í tilkynningu Veðurstofunnar.