Þráttað um milljarðs skammtímalán
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Umbótar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar gagnrýndu skammtíma lántöku sveitarfélagsins upp á einn milljarð króna og sögðu áætlanagerð ekki hafa staðist. Sjálfstæðisflokkur og Umbót lögðu fram bókanir um málið sem og meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar. Meirihluti bæjarstjórnar segir í bókun að bæjarfélagið hafi staðið í fjárfrekum fjárfestingum en lagt sé áhersla á ábyrga fjármálastjórnun.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri sagði að hann og fjármálastjóri sveitarfélagsins hefðu skoðað málið og rætt hvernig hægt væri að gera betur. „Það er hægt að benda á að meðal ástæðna er gífurlega hraður vöxtur í bæjarfélaginu mörg undanfarin ár. Það er dýrt að vaxa. Á öðrum norðurlöndum eru sjóðir á vegum ríkisins sem koma sveitarfélögum í hröðum vexti til aðstoðar, sem þó er ekki nema 1-2% á meðan vöxtur í Reykjanesbæ hefur verið 6-8% í mörg ár. Það er ekkert sveitarfélag á Íslandi sem hefur staðið frammi fyrir slíkum áskorunum,“ sagði Kjartan Már.
Bókun meirihlutans:
Meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórn hér eftir sem hingað til.
Þann 13. febrúar síðastliðinn leitaði fjármálastjóri Reykjanesbæjar eftir heimild frá bæjarráði til að tryggja skammtímafjármögnun fyrir einn milljarð vegna tímabundins lausafjárvanda.
Skýringarnar fyrir þessari stöðu eru helst þær að Reykjanesbær hefur á undanförnum árum farið af stað með miklar og fjárfrekar fjárfestingar vegna mikillar fjölgunar íbúa en einnig vegna þess að við stöndum frammi fyrir umfangsmiklu viðhaldi á mörgum af okkar húsum sökum rakavandamála. Fjárfestingar Reykjanesbæjar fyrir árið 2024 telja tæpa sex milljarða en á árinu 2025, gerum við ráð fyrir fjárfestingum fyrir tvo milljarða sem áætlað er að þurfi ekki að fjármagna með lántöku.
Við höfum undanfarin ár verið að endurgera tvo grunnskóla sem voru hvað verst farnir af rakaskemmdum og erum langt komin með þá báða. Þessar framkvæmdir hafa reynst mjög dýrar þar sem við erum einnig að stækka báða skólana samhliða og kaupa inn nýjan búnað. Auk þessara tveggja skóla höfum við verið að sinna viðhaldi í öðrum leik- og grunnskólum í sveitarfélaginu því við viljum af öllum mætti koma í veg fyrir það að eins umfangsmiklar rakaskemmdir komist af stað í öðrum húsum okkar.
Auk þess erum við að reisa nýtt hjúkrunarheimili fyrir 80 íbúa sem við munum opna síðar á árinu en í þeirri framkvæmd greiðum við kostnaðinn í fyrstu og fáum síðar greitt frá ríkinu. Fjármálastjóri kynnti fyrir bæjarráði að sveitarfélagið á útistandandi reikninga frá ríkinu m.a. vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilisins upp á 200 milljónir og vegna annarra samninga við ríkið um 120 milljónir.
Önnur atriði sem vert er að taka fram:
- Samhliða þeirri miklu íbúafjölgun sem hefur verið undanfarin ár höfum við endurgert Skólaveg 1 sem leikskólaútibú Tjarnarsels og erum að klára tvo nýja 120 barna leikskóla, annars vegar leikskólann Asparlaut í Keflavík og Drekadal í Innri-Njarðvík.
- Við ákváðum að flýta útskiptingu á gervigrasi í Reykjaneshöllinni þar sem fyrra gras var ekki talið vera öruggt fyrir iðkendur en þar var gert ráð fyrir kostnaði að upphæð 80-100 milljónir sem við greiðum núna í febrúar.
- Reykjanesbær, líkt og önnur sveitarfélög, eru að fást við talsverðan kostnað vegna veikinda starfsfólks. Á þetta bæði við um skammtíma- og langtímaveikindi en þessi kostnaður var um 200 milljónir fyrir árið 2024.
- Reykjanesbær greiddi einnig 103 milljónir í skólamáltíðir grunnskólabarna frá ágúst til desember en þetta er innan ákvæði kjarasamninga.
- Að lokum skal sagt að þessi mikli kostnaður er að koma til í lok árs á sama tíma og við vorum að klára íþróttamiðstöðina í Stapaskóla og fasteignagjöld eru ekki að koma inn sem tekjur, líkt og ávallt í desember og janúar.
Meirihlutinn hefur lagt áherslu á að áætla tekjur varlega í fjárhagsáætlunum síðustu ára þrátt fyrir nokkurn þrýsting um að gera það ekki. Það er nefnilega betra að eiga meira fjármagn seinni hluta árs í stað þess ofáætla tekjur og lenda svo í vandræðum og ná ekki endum saman.
Reykjanesbær er ekki í rekstrarlegum erfiðleikum en við erum að brúa bil þar sem við erum að sjá tímabundinn lausafjárskort. Það er ekki óalgengt að sveitarfélög leiti eftir tímabundnum lánalínum þegar uppvaxtarhraðinn er eins og hann er hjá okkur.
Það er mikilvægt að við öll gerum okkur grein fyrir því að stækkun sveitarfélaga kostar og aukin þjónusta kostar. Staða og rekstur sveitarfélagsins er góður því hér hefur verið vel haldið utan um fjármál undanfarin ár og það stendur ekki til að gera breytingar þar á.
Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon, Sigurrós Antonsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir og Valgerður Björk Pálsdóttir.
Bókun Umbótar:
Við stöndum nú frammi fyrir alvarlegu lausafjárvandamáli hjá bæjarsjóði. Meirihlutinn, Samfylking, Framsókn og Bein Leið hafa brugðist við þessum fjárhagsvanda með því að taka skammtímalán. Þetta hefur komið til vegna þess að í desember og janúar voru ekki innheimt fasteignagjöld. Það er ekkert nýtt af nálinni og allir ættu að vera meðvitaðir um það og hefði átt að vera öllum ljóst. Þetta er algjörlega óásættanlegt. Það er mikilvægt að stýra fjárflæði samkvæmt innstreymi hverju sinni og gæta þess að til sé sjóður fyrir þá mánuði ársins sem bera minna innstreymi. Stærstu kostnaðarliðir eru þekktir og ætti þetta því ekki að vera að koma okkur á óvart.
Við sjáum að það eru vanáætlanir varðandi útgjöld til dæmis þegar kemur að búnaðarkaupum fyrir Myllubakkaskóla og Holtaskóla. Auk þess hafa nokkrir stórir reikningar sem tilheyrðu síðasta fjárhagsári komið til greiðslu eftir áramót, svo sem gervigras, lóðarleiga til ríkisins, kaup á búnaði og viðhaldsefni og uppsetningu ljósleiðara í Höfnum. Einnig var framkvæmdakostnaður vegna íþróttamiðstöðvar í Stapaskóla mjög þungur á síðustu mánuðum ársins og umfram fjárfestingaráætlun.
Áætlanagerð Reykjanesbæjar hefur greinilega ekki staðist og skortur er á yfirsýn og samræmingu enda samþykkti Umbót ekki fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 ásamt Sjálfstæðisflokki. Bæjarfulltrúar minnihlutans fengu ekki upplýsingar um þessa stöðu fyrr en á bæjarráðsfundi þann 13. febrúar þegar beiðnin var lögð fram. Það er algjörlega óásættanlegt að svona mikilvæg ákvörðun um fjármál Reykjanesbæjar sé ekki kynnt og rædd áður.
Það er enn óljóst hvað milljarða skammtímalánið mun kosta bæjarbúa þar sem að kjörin frá Landsbankanum á nýtt skammtímalán er ennþá í vinnslu og á eftir að taka hana fyrir hjá lánanefnd.
Ekki má gleyma því að þann 19. nóvember sl., var tillaga bæjarráðs um heimild til lántöku upp á 2,5 milljarða hjá Lánasjóði sveitarfélaga samþykkt í bæjarstjórn. Í minnisblaði sem fylgdi, kom fram að óskað væri eftir heimildinni til að greiða upp skammtímafjármögnun sveitarfélagsins.
Í Ljósi þessa þá spyr ég, getum við treyst því að fjármálastefna Reykjanesbæjar sé raunhæf og áreiðanleg?
Þetta er ekki aðeins spurning um tölur og reikninga, þetta snýst um traust okkar til stjórnar og ábyrgðar gagnvart framtíð Reykjanesbæjar. Nú er rétti tíminn til að endurskoða áætlanir, auka gagnsæi og ábyrgð í fjármálastjórnuninni svo að við tryggjum að hver króna sé notuð á réttan hátt og í hag allra bæjarbúa.
Ég legg því til að við setjum okkur markmið um betri fjármálastjórnun og að framkvæmdir verði aðeins hafnar ef til staðar er nægilegt fjármagn.
Með því að vinna saman og leggja áherslu á traust og gott upplýsingaflæði til minnihlutans, sem er ábótavant og raunhæft skipulag, getum við tryggt farsæla framtíð fyrir Reykjanesbæ.
Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
Bókun Sjálfstæðisflokks:
Í endurskoðunarskýrslu PWC vegna síðasta ársreiknings Reykjanesbæjar, vegna ársins 2023, kemur eftirfarandi fram:
„Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að fylgjast vel með lausafjárhlutfalli á komandi tímabilum.”
Fyrir nákvæmlega þremur mánuðum, þann 19. nóvember sl., var tillaga bæjarráðs um heimild til lántöku upp á 2,5 milljarða hjá Lánasjóði sveitarfélaga samþykkt í bæjarstjórn. Í minnisblaði sem fylgdi, kom fram að óskað væri eftir heimildinni til að greiða upp skammtímafjármögnun sveitarfélagsins.
Í bæjarráði í síðustu viku, þann 13. febrúar, einungis þremur mánuðum síðar, var lögð fram ósk um eins milljarða skammtímafjármögnun til viðbótar, til eins árs. Í minnisblaði kom fram eftirfarandi rökstuðningur.
Orðrétt segir; “Ekki eru innheimt fasteignagjöld í desember og janúar en það eru um 720 milljónir samanlagt.” Þess verður að geta hér að tekjum vegna fasteignagjalda hefur verið dreift á 10 mánuði, febrúar-nóvember, í fjölda ára og hefði því ekki átt að koma á óvart að þær bærust ekki í desember og janúar.
Ýmsar aðrar ástæður eru taldar upp sem skýringar á sjóðstreymisvandanum, meðal annars fjárútlát vegna hjúkrunarheimilis og að framkvæmdakostnaður vegna íþróttamiðstöðvar í Stapaskóla hafi verið mjög þungur á síðustu mánuðum ársins og umfram fjárfestingaráætlun.
Það vekur athygli, að í minnisblaðinu kemur í fyrsta skipti fram, að framkvæmdakostnaður vegna íþróttamiðstöðvar í Stapaskóla hafi verið umfram fjárfestingaáætlun. Auk þess eru nefnd fjárútlát vegna hjúkrunarheimilis, en Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót gerðu athugasemd við það að ekki væri tekið tillit til þeirra og annars kostnaðar, í bókun þegar við sátum hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025, enda töldum við hana ekki raunhæfa. Það er ekki langt liðið á árið þegar ljóst er að við reyndumst sannspá.
Sjálfstæðisflokkurinn spyr því meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar;
Hvers vegna lágu upplýsingar um fjárþörf ekki fyrir fyrr?
Hvernig stendur á því að kostnaðar- og sjóðsstreymisáætlanir sem bæjarfulltrúum hafa verið kynntar, standast ekki betur en þetta, strax í upphafi nýs árs?
Það er eitt er að þurfa að fara í lántökur, en er ekki lágmarkskrafa að það sé gert með góðum fyrirvara og stutt af góðum áætlunum til að lágmarka kostnað eins og hægt er?
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks,
Margrét Sanders
Guðbergur Reynisson
Helga Jóhanna Oddsdóttir