Þvoði og braut saman þvott nágranna eftir óveður
Hér er jákvæðasta frétt dagsins: Íbúar í Innri Njarðvík eru heppnir með nágranna. Í óveðri um síðustu helgi fauk þvottur af snúru og hafnaði í húsgarði við Dalsbraut 14. Íbúi þar bjargaði þvottinum í hús, skellti honum í þvottavélina og braut saman.
„Kæru nágrannar. Ég bý á Dalsbraut 14 og þessi tvö handklæði fuku í garðinn til mín í veðrinu um helgina. Ef einhver kannast við þau þá bíða þau hér hrein og samanbrotin,“ skrifaði Katrín Lilja Hraunfjörð á fésbókarsíðu íbúa í Innri Njarðvík.
Katrín Lilja fær þakkir fyrir framtakið en einnig ábendingu í léttum dúr þar sem fullyrt er að núna fyllist garðurinn hennar af þvotti í næsta roki.
Og tilkynningin bar árangur.
„Handklæðin hafa fundið eiganda sinn. Núna bíð ég eftir næsta roki og sé til hvort garðurinn fyllist af þvotti. Ég bendi á að betra er að merkja þvottinn áður en hann „fýkur“ til mín skrifar Katrín Lilja Hraunfjörð svo í morgun.