Viðreisn
Viðreisn

Fréttir

Uppsetning eldsneytisverksmiðju CRI í Svartsengi á lokastigi
Mánudagur 6. júní 2011 kl. 10:20

Uppsetning eldsneytisverksmiðju CRI í Svartsengi á lokastigi

Framkvæmdir við verksmiðju Carbon Recycling International (CRI) við Svartsengi eru nú á lokastigi.  Framkvæmdum við verksmiðjuhús og búnað til framleiðslu á vetni úr vatni og rafmagni er nærri lokið.  Búnaður til hreinsunar á jarðgufu, efnablöndun og eimingar kom til Helguvíkurhafnar í síðustu viku með leiguskipi, sem hafði verið á siglingu frá Houston í Texas frá því í byrjun maímánaðar.

Uppsetning búnaðarins hófst sl miðvikudag og er gert ráð fyrir að prófanir á verksmiðjunni geti hafist fyrir lok júní.
Búnaðurinn sem kom með skipinu til Helguvíkur samanstendur af sérsmíðuðum framleiðslueiningum sem reistar voru og tengdar við verksmiðjuna. Um er að ræða meira en 200 tonn af einingum. Stærsta einingin vegur um 42 tonn og er 23 metrar að lengd og 4,5 metrar á breidd. Auk starfsmanna CRI tekur fjöldi undirverktaka þátt í þessum framkvæmdum, en yfir 50 manns eru nú við vinnu við verkefnið.

ÍAV hefur séð um framkvæmdir á byggingarstað, en starfsmenn fjölda innlendra og erlendra verkfræðifyrirtækja koma einnig að verkefninu.

Verksmiðja Carbon Recycling er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. CRI hefur þróað aðferð til þess að hreinsa koltvísýring úr útblæstri orkuvera eða verksmiðja og endurvinna kolefnið til framleiðslu á eldsneyti. Koltvísýringnum er blandað við vetni sem framleitt er með rafgreiningu úr vatni og er efnunum blandað saman til að mynda metanól.  Í Svartsengi verður koltvísýringurinn unninn úr jarðgufu orkuversins en við það er einnig komið í veg fyrir losun brennisteinsvetnis.  Eini útblástur eldsneytisverksmiðjunnar er hreint súrefni.

Endurnýjanegu metanól verður blandað við bensín en allir bensínbílar geta brennt lágri blöndu af metanóli og bensíni.  Við það fæst bensín með hárri oktantölu og hreinni bruni. Þá er endurnýjanlegt metanól einnig hráefni til framleiðslu á lífdísil. Með þessum hætti er í fyrsta sinn hægt að endurvinna gróðurhúsalofttegundir til  framleiðslu bílaeldsneytis.




Myndin: Metanólverksmiðjan í Svartsengi um nýliðna helgi. VF-mynd: Hilmar Bragi

SSS
SSS