Vegagerðin getur ekki hunsað þessa vegi
-Hópurinn „Stopp hingað og ekki lengra“ vill meiri framkvæmdir
„Það verður að fara að gera hlutina af alvöru og endurbyggja vegakerfið hér fyrir sunnan þannig að hugsað sé tuttugu ár fram í tímann,“ segir Guðbergur Reynisson, einn af stofnendum hópsins „Stopp hingað og ekki lengra“, en hópurinn hefur barist fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar ásamt ýmsu öðru til að auka umferðaröryggi landsmanna.
Guðbergur segir frábært að sjá allar þær vegaframkvæmdir sem komnar séu í gang á suðvesturhorninu. „Við Krísuvíkurafleggjara eru framkvæmdir við mislæg gatnamót í fullum gangi, vinna er hafin við hringtorgin tvö á Aðalgötu og Þjóðbraut og miklar lagfæringar á Reykjanesbrautinni, sem mættu þó vera enn meiri. Aðrir vegir hér eru komnir að þolmörkum og ber að nefna fyrstan Grindavíkurveg. Mér finnst til skammar hversu langan tíma öryggisúttekt tekur eða hvað það er sem tefur ákvarðanatöku. Hafnaveg þyrfti að lagfæra frá byrjun til enda. Garð- og Sandgerðisvegir eru líka komnir að þolmörkum og Vegagerðin getur ekki hunsað þessa vegi eða hent í þá smáaurum.“
Hópurinn bíður eftir svari frá samgönguráðherra og vegamálastjóra varðandi erindi hópsins um hvort ekki megi hefjast handa við hönnun tvöföldunar á þeim köflum Reykjanesbrautarinnar sem eftir eru. Guðbergur segir þá vinnu þurfa að gerast hvað svo sem ákveðið verði í gjaldtökumálum.
„Fyrir hönd Stopp hingað og ekki lengra-hópsins og allra íbúa Suðurnesja skora ég á þingmenn kjördæmisins að vinna betur í að tryggja að svæðið hér fái almennilega fjármögnun svo hægt sé að klára þessar löngu tímabæru vegaumbætur. Ef það er vilji þá er vegur.“