Fréttir

Vilja reisa húsnæði til bráðabirgða á lóð lögreglunnar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 12. desember 2023 kl. 17:47

Vilja reisa húsnæði til bráðabirgða á lóð lögreglunnar

Lögreglan á Suðurnesjum hefur óskað heimildar hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar til að koma fyrir húsnæði til bráðabirgða á lóð sinni við Hringbraut 130 í Keflavík. Umsóknin, sem er studd með teikningu, var samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Þá leggur umhverfis- og skipulagsráð áherslu á að hugað verði að framtíðar húsnæðismálum Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Húsnæði lögreglunnar á Suðurnesjum við Hringbraut 130 er að mestu leyti óstarfhæft vegna óheilsusamlegs húsnæðis. Fangageymslur og bílgeymsla eru þó enn í notkun. Til að bregðast við þessum vanda er óskað eftir heimild til að byggja tímabundið húsnæði að Hringbraut 130, sunnan megin við núverandi lögreglustöð, ekki ólíkt því sem reist hefur verið við nokkrar stofnanir Reykjanesbæjar á undanförnum árum.

Nýtt húsnæði kæmi sunnan við núverandi lögreglustöð og skapar starfsmönnum lögreglunnar ásamt þeirra skjólstæðingum starfhæft umhverfi þangað til nýtt og fullnægjandi húsnæði yrði byggt, líklega á einhverjum öðrum stað í bænum. Vonir standa um að nýtt húsnæði verði tekið í notkun ekki síðar en árið 2028.

Nýtt húsnæði yrði reist úr stálgrindar einingum á tveimur hæðum að hluta og mun hýsa skrifstofur, fundarsal, yfirheyrsluherbergi, starfsmannaaðstöðu og búningsklefa. Það yrði í heild u.þ.b 800 m². Mesta hæð u.þ.b. 7.5 m. Staðsetning hússins á lóðinni er unnin í samráði við verkkaupa. Verkkaupi vill góða tengingu við bílageymslu með skýli/göngum að nýju húsnæði svo ekki sé brotið gegn þeirra skjólstæðingum þegar þeir yrðu fluttir milli bygginga. Aðrar staðsetningar á lóðinni eru ekki talda mögulegar til þess.