Fréttir

  • Vopnin öll geymd á Keflavíkurflugvelli
    Sérsveit Ríkislögreglustjóra að störfum í Reykjanesbæ. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Vopnin öll geymd á Keflavíkurflugvelli
    Athafnasvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.
Mánudagur 27. október 2014 kl. 16:24

Vopnin öll geymd á Keflavíkurflugvelli

– 310 hríðskotabyssur, 50 hjálmar og 50 vesti

Landhelgisgæslan geymir samtals 310 hríðskotabyssur, þar af tíu MP3 hríðskotabyssur og 300 MP5 hríðskotabyssur í vopnageymslum Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar eru einnig 50 hjálmar og 50 vesti sem Landhelgisgæslan hefur fengið frá norska hernum á árunum 2011 til 2014. Landhelgisgæslan hefur sent frá sér yfirlit yfir þann búnað sem komið hefur frá Norðmönnum á síðustu árum ásamt skýringum.

Um er að ræða þrjár gjafir.  Sú fyrsta var á árinu 2011 en þá stóð Landhelgisgæslan frammi fyrir því að þurfa með stuttum fyrirvara að senda tvö varðskip á varasama staði í Miðjarðarhafinu og var í því skyni leitað til Norðmanna um lán á hentugum varnarvopnum.  Þannig stóð á að norski flugherinn var á leið til Íslands vegna verkefna.  Herinn leysti málið fyrir Landhelgisgæsluna á tveimur sólarhringum og sendi 50 MP5 hríðskotabyssur sem þeir höfðu aflagt.  Vopnin eru geymd í vopnageymslu Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Verðmat þessarar gjafar var 2.500 NOK per stykki sem er aðeins 1/8 af verði þessara vopna frá framleiðanda í Þýskalandi.  Engar greiðslur hafa farið fram og enginn reikningur verið sendur.

Önnur gjöfin var innt af hendi í júní 2013 þegar yfirmaður norska heraflans var staddur á Íslandi vegna funda með fulltrúum utanríkisráðuneytisins.  Færði norski herinn þá Landhelgisgæslunni alls 50 hjálma, 50 vesti og 10 hríðskotabyssur af gerðinni MP3. Um þetta var ekki gert sérstakt samkomulag heldur liggur aðeins fyrir farmbréf um þann gjörning. Þessar 10 hríðskotabyssur eru allar í vopnageymslu Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hafa ekki enn verið teknar í notkun. Verðmat gjafarinnar var 2 NOK.  Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi og enginn reikningur verið sendur.

Þriðja vopnagjöfin er frá árinu 2013 og kom til landsins með norskri herflutningavél í febrúar 2014.  Þar var um að ræða 250 hríðskotabyssur af gerðinni MP5 en þar af voru 150 ætlaðar Ríkislögreglustjóra, samkvæmt beiðni hans til norskra yfirvalda. Þær hundrað sem eftir standa eru ætlaðar til endurnýjunar og viðhalds fyrir Landhelgisgæsluna. Allar þessar byssur eru geymdar í vopnageymslu Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hafa ekki verið formlega afgreiddar né afhentar. Verðmat þessarar gjafar var 2.500 NOK per stykki sem er aðeins 1/8 af verði þessara vopna frá framleiðanda í Þýskalandi. Engar greiðslur hafa farið fram og enginn reikningur verið sendur.

Eins og fram hefur komið var Landhelgisgæslan milliliður vegna beiðni Ríkislögreglustjóra vegna umræddra vopna en í gegnum árin hefur Landhelgisgæslan haft milligöngu um öflun ýmissa tækja og tæknibúnaðar frá hernaðaryfirvöldum fyrir ýmsar stofnanir á Íslandi, þar sem hún er tengiliður við hernaðaryfirvöld víða um heim.  Má þar nefna veðurratsjár, aðflugsbúnað og flugvallartæki.

Gjafir sem þessar hafa ekki boðist Landhelgisgæslunni nema á nokkurra áratuga fresti og byggjast á góðu samstarfi Landhelgisgæslunnar við hernaðaryfirvöld nágrannaþjóðanna.  Fjárhagsstaða Landhelgisgæslunnar leyfir ekki endurnýjun búnaðar sem þessa nema með þeim hætti sem hér er rakinn.  Því þáði Landhelgisgæslan þetta boð um aflögð vopn í því skyni að endurnýja varnarvopn og eiga varahluti til næstu áratuga.  Hér er ekki um að ræða öflugri vopn en verið hafa í vopnasafni Landhelgisgæslunnar fram að þessu. Landhelgisgæslan telur þetta eðlilega framkvæmd og nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda lágmarksöryggisbúnaði og í fullu samræmi við gildandi lög, reglugerðir og verklagsreglur sem gilda um vopnaeign og vopnaburð Landhelgisgæslunnar og felur þar af leiðandi ekki í sér neina stefnubreytingu í þeim efnum.