Hlaðvarp Víkurfrétta

Hlaðvarp // Jóhann Smári Sævarsson
Föstudagur 15. mars 2024 kl. 15:56

Hlaðvarp // Jóhann Smári Sævarsson

Óperusöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson hefur sungið með stærstu hljómsveitum í heimi, í stærstu tónlistarhúsunum en kom svo heim til Keflavíkur til að kenna söng og stýra karlakórum.

Jóhann Smári Sævarsson er einn af sonum Keflavíkur sem hin síðari ár hefur látið mikið að sér kveða í menningarlífi Suðurnesja og ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kemur að því að setja upp menningarviðburði á hinu klassíska sviði.

Jóhann Smári hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London.

Að námi loknu réði Jóhann Smári sig sem einsöngvari við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg, hann söng sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu og hefur starfað með ýmsum frægum hljómsveitastjórum. Þá hefur hann sungið óperuhlutverk í áttatíu og fimm óperuuppfærslum á ferlinum. Nú kennir hann söng, setur upp verk og stýrir karlakórum á Suðurnesjum.