Íþróttir

Ástandið hefur reynt á okkur Íslendingana í liðinu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 28. janúar 2024 kl. 07:06

Ástandið hefur reynt á okkur Íslendingana í liðinu

Ólafur Ólafsson, fyrirliði körfuknattleiksliðs Grindavíkur, segir tímabilið hafa verið furðulegt en liðið geti farið langt. Með besta útlendinginn í deildinni.

Íslandsmót karla í körfuknattleik hefur sjaldan eða aldrei verið eins spennandi og má segja að níu lið geri tilkall til titilsins í vor. Lið Grindavíkur er eitt þeirra, liðið er mjög vel mannað og er á pappír á pari við þau bestu. Tímabil þeirra hefur hins vegar verið mjög furðulegt vegna hamfaranna í Grindavík. Liðið þurfti að æfa á nokkrum stöðum fyrstu dagana, vel gekk að gíra mannskapinn upp í fyrsta leiknum eftir 10. nóvember en svo kom ansi mikil dýfa en liðið hefur síðan rétt úr kútnum og unnið fjóra leiki í röð í deildinni.

Ólafur Ólafsson er fyrirliði liðsins. „Ég hef það bara þokkalegt í dag, tek einn dag í einu og reyni að njóta lífsins. Þetta er auðvitað búið að vera mjög furðulegt tímabil, við þurftum að æfa á nokkrum stöðum til að byrja með en í fyrsta leiknum eftir hamfarirnar gekk okkur mjög vel að gíra okkur upp með þann frábæra stuðning sem við fengum þann dag. Eftir það var aðeins eins og við hefðum lent á vegg, frammistaðan var alls ekki nógu góð og við lentum í lægð. Þetta ástand reyndi einfaldlega á okkur Íslendingana, sumir voru að flytja á milli íbúða, við æfðum hér og þar svo þetta var erfitt hjá okkur um tíma. Við náðum síðan tveimur góðum sigrum fyrir jólafríið og höfum svo verið nokkuð góðir á þessu ári og unnið alla leikina okkar í deildinni. Það voru auðvitað vonbrigði að tapa bikarleiknum á móti Álftanesi á sunnudagskvöldið, það hefði verið gaman að fara með bæði liðin okkar í bikarvikuna í Laugardalshöllinni en við áttum einfaldlega lélegan dag og Álftnesingar voru betri.“

Ólafur vakti athygli eftir síðasta tímabil þegar hann kallaði eftir meiri metnaði hjá stjórninni og vildi að liðið yrði styrkt. Ákallið náði eyrum stjórnarfólks og má segja að Grindavíkurliðið sé, á pappír, á pari við bestu lið landsins. Sérstaka athygli vakti koma Bandaríkjamanns sem spilar sem Evrópumaður á ungversku vegabréfi. „Deandre Kane er langbesti leikmaður sem ég hef æft og spilað með, einfalt. Ég tel hann vera besta leikmanninn í deildinni. Hann er ótrúlega metnaðarfullur og þolir einfaldlega ekki ef liðsfélagar hans eru ekki að standa sig. Þá hleypur í hann pirringur og það er einfaldlega okkar hlutverk að standa okkur svo hann nái því besta út úr sjálfum sér. Hann er þannig karakter að ef hann er í gírnum eru allir í kringum hann í gírnum og eins á hann til að draga okkur niður ef hann er ekki að finna sig. Það er á ábyrgð okkar eldri leikmannanna og þjálfaranna að halda honum á tánum þegar skapið hleypur með hann í gönur. Við erum allir í þessu saman, við erum með sömu markmið og það er að vinna. Gott dæmi um þegar hann pirrar sig er þegar við spiluðum við Val í deildinni fyrir áramót. Hann byrjaði að dekka Kristinn Pálsson og Kiddi skoraði ekki stig. Á meðan var Kaninn hjá Val að salla niður körfum svo Kane fór á hann og slökkti í honum. Kaninn skoraði ekki stig eftir að Kane fór á hann en þá datt Kiddi í gang. Hann verður eðlilega pirraður þegar hlutirnir eru svona en ég hef engar áhyggjur af honum. Ég held að hann og liðið okkar eigi bara eftir að vaxa og dafna og við komum á bullandi siglingu inn í úrslitakeppnina,“ segir Ólafur.

Ljónagryfjan heimavöllur Grindvíkinga í framtíðinni?

Ólafur og hans fjölskylda voru heppin, þau komust í íbúð í Reykjavík 12. nóvember en samt var erfitt að halda rútínu því börnin eru á leikskólaaldri og komust ekki í leikskóla til að byrja með. Það reyndi á. „Íbúðin sem við erum búin að vera í er frekar lítil svo það hefur verið þröngt á þingi hjá okkur en við erum að komast í stærri íbúð, sem reyndar er tóm, vonandi getum við sótt búslóðina okkar fljótlega til Grindavíkur. Við eigum tvö börn, fimm ára stelpu og tveggja ára strák, það verður gott þegar þau komast í sín herbergi en við Katrín konan mín höfum verið með þau í sitthvoru herberginu til þessa. Fyrstu vikurnar var krefjandi að vera með börnin allan daginn og hafa ofan fyrir þeim, sem betur fer fóru svo leikskólarnir að opna og það létti helling undir með okkur en því miður virðist vera komið eitthvað bakslag í það. Við höfum verið að reyna komast inn í leikskóla í Hafnarfirði en þá þurfum við að skrá lögheimilið okkar þar, Hafnafjarðarbær virðist ekki geta gefið sömu undanþágu frá því og önnur sveitarfélög. Ég var að vinna í íþróttahúsinu í Grindavík og hef verið að vinna í safnskólunum og í klefavörslu í leikfimi skólabarnanna. Það er gott að geta haft rútínu.“

Óvissa um framtíðina

Framtíð körfuknattleiks í Grindavík er í uppnámi vegna óvissunnar sem gæti verið í nokkur ár ef því er að skipta. Hvað verður um íþróttir í Grindavík? Ólafur vill ekki mála skrattann á vegginn.

„Ég get ég ekki hugsað þá hugsun til enda að þetta sé síðasta tímabilið í einhvern tíma þar sem við spilum undir merkjum Grindavíkur. Mér sýnist nokkuð ljóst að við þurfum að búa okkur til nýjan heimavöll tímabundið, af hverju ekki að fara í Ljónagryfjuna? Njarðvíkingar munu leika heimaleiki sína á næsta tímabili í nýja íþróttahúsinu í Innri-Njarðvík. Því skyldum við Grindvíkingar ekki bara gera Ljónagryfjuna að okkar heimavelli? Annars vil ég ekki hugsa of mikið um þetta, vil bara einbeita mér að þessu tímabili og ætla mér að landa Íslandsmeistaratitli. Við erum með mannskapinn í það og ef við höldum rétt á spöðunum getum við endað með þann stóra í okkar höndum, það yrði ótrúlega skemmtilegt að geta fært Grindvíkingum þá gjöf á þessum erfiðu tímum sem við erum að upplifa,“ sagði Ólafur að lokum.