Íþróttir

Benóný: Lykilatriði að halda Shouse niðri
Fimmtudagur 14. febrúar 2013 kl. 07:00

Benóný: Lykilatriði að halda Shouse niðri

Það er stór íþróttahelgi framundan fyrir Suðurnesjamenn. Tvö lið af Suðurnesjum leika til úrslita í Powerade-bikar KKÍ. Grindavík leikur gegn Stjörnunni í karlaflokki og Keflavík mætir Val í kvennaflokki. Víkurfréttir ætla að hita upp fyrir leikina og hafa viðað að sér spám frá nokkrum aðilum tengdum körfubolta á svæðinu.

Við fengum Grindvíkinginn síkáta Benóný Harðarson til að spá fyrir um úrslit leikjanna um helgina. Benóný hefur lengi verið viðriðinn körfuboltann í Grindavík en starfar nú sem yfirþjálfari hjá körfuknattleiksdeild Breiðabliks. Benóný spáir bikartvennu á Suðurnesin þetta árið.

Hvernig fara leikirnir á laugardaginn í karla og kvennaflokki?

Grindavík-Stjarnan: Þetta verður hörkuleikur eins og þetta er búið að spilast að undanförnu þá eiga Grindvíkingar að vinna þennan leik. Breiddin í liðinu er líklega enn meiri en hún var í fyrra, þó að það sé reyndar líka góð breidd hjá Stjörnunni þá eiga Grindvíkingar að mínu mati að vera með sterkara lið. Ekki má gleyma því að Grindvíkingar eins og Þorleifur og Ómar fara í Höllina brjálaðir enda búnir að tapa í höllinni tvisvar á síðustu þremur árum, það hlýtur t.d að vera draumur Þorleifs fyrirliða Grindvíkinga að lyfta dollunni í höllinni fyrir framan 2000 Grindvíkinga. Ég spái því 14 stiga sigri Grindvíkinga.

Keflavík-Valur: Miðað við formið á Keflavík á þetta að vera leikur kattarins að músinni. Ég spái þó að þetta verði spennandi leikur þar sem Keflavík vinnur þetta með 5 stigum. Báðir bikararnir fara því til Suðurnesja.

Hvað mun ráða úrslitum í þessum leikjum?

Eins og ég sagði með Grindavík-Stjörnuna mun breiddin ráða miklu. Ég hef þó þá sýn á körfubolta að liðið sem spilar betri vörn vinnur leikinn, það mun því ráðast á því hvort liðið er tilbúið að leggja meira á sig. Það lið sem er tilbúið að berjast um alla bolta, henda sér á eftir tuðrunni og taka þau fráköst sem eru í boði vinnur leikina. Einnig mun stuðningur áhorfenda ráða miklu, að fara í höllina er eitthvað sem alvöru stuðningsmaður má ekki láta framhjá sér fara!

Sérðu fyrir þér einhverja sem munu leika sérstaklega vel í leikjunum? Einhver sem vert er að fylgjast sérstaklega með?

Títnefndur Þorleifur og jafnvel bróðir hans Ólafur (maður veit aldrei uppá hverju hann tekur). Einnig væri ég til í að sjá ungu leikmennina fá að spreyta sig á stóra sviðinu eins og Jón Axel í Grindavík og Daði Lár í stjörnunni. Ég veit að vinir mínir Sverrir og Teitur taka vel í þessa bón, enda eiga þessir strákar eftir að búa að því alla ævi ef þeir fá að spila alvöru mínútur í bikarúrslitaleik.

Það hlýtur einnig að vera áhersluatriði að halda Shouse niðri hjá Grindvíkingum þar sem hann stjórnar Stjörnumönnum. Ef hjartað er tekið úr liði þá er ekki að spyrja að leikslokum.

Hvar liggur munurinn á liðunum?

Munurinn hjá liðunum er ekki svo ýkja mikill ef Grindvíkingar fá fleiri til að skora þá vinna þeir. Ef þeir dreifa spilatíma vel þá eiga þeir að geta nýtt sér það.

Í kvennaleiknum er það fyrst og fremst reynsla Keflavíkurstelpna og hefðin sem þær hafa fram yfir Val. Þó að Valur hafi stelpur eins og Signý og Kristrúnu sem hafa spilað marga svona leiki, þá er öðruvísi að fara sem Valsari en Keflvíkingur í Höllina. Á Suðurnesjum er krafa um titla og það er leikmanna að standast kröfur bæjarbúa.


Bensó er eldheitur í stúkunni þegar dómar fara gegn Grindavíkingum.