Íþróttir

Bláa Lónið og Íþróttasamband fatlaðra framlengja öflugu samstarfi fram til 2026
Mynd frá vinstri: Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa Lónsins og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF.
Þriðjudagur 20. ágúst 2024 kl. 13:30

Bláa Lónið og Íþróttasamband fatlaðra framlengja öflugu samstarfi fram til 2026

Íþróttasamband fatlaðra og Bláa Lónið hafa framlengt samstarfs- og styrktarsamningi sínum til ársins 2026. Bláa Lónið hefur verið einn fremsti samstarfsaðili Íþróttasambands fatlaðra í rúman áratug. Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF, og Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, undirrituðu nýja samninginn í Bláa Lóninu í Svartsengi á dögunum.  

„Samstarfsaðilar á borð við Bláa Lónið skipta sköpum fyrir starfsemi eins og hjá okkur á Íþróttasambandi fatlaðra. Lýðheilsa einstaklinga með fatlanir er þjóðþrifamál og því mikilvægt að fólk með fatlanir stundi heilbrigðan lífsstíl. Íslenskt afreksfólk úr röðum fatlaðra hefur notið myndarlegs stuðnings fólks og fyrirtækja í rúma fjóra áratugi og árangurinn hefur ekki látið á sér standa en alls hafa íslenskir íþróttamenn unnið til 98 verðlauna á Paralympics," sagði Þórður Árni Hjaltested við tilefnið. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, tók í sama streng. „Íþróttasamband fatlaðra vinnur ómetanlegt starf á sínu sviði. Við erum að vonum ánægð með samstarfið enda kappkostum við að styðja við og styrkja samfélagið okkar, einkum á sviði lýðheilsumála. Við erum þó fyrst og fremst stolt af íþróttafólki sambandsins sem hefur vakið athygli fyrir afburðaárangur. Það er okkur bæði ljúft og skylt að styðja við bakið á þeim, sérstaklega nú í aðdraganda Ólympíuleika sem hefjast í lok þessa mánaðar. Við óskum keppendum til hamingju með afburðaárangur og óskum þeim velfarnaðar í París.“