Íþróttir

Eldfljótur og stefnir langt
Freysteinn með boltann í leik gegn Leikni fyrr í sumar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 30. ágúst 2024 kl. 06:14

Eldfljótur og stefnir langt

Knattspyrnumaðurinn Freysteinn Ingi Guðnason hefur vakið athygli síðustu tvö tímabil með Njarðvíkingum en hann varð yngsti leikmaðurinn í sögu meistaraflokks Njarðvíkur þegar honum var skipt inn á í leik gegn Ægi í annarri deild, þá einungis fjórtán ára gamall. Rúmu ári síðar, þá nýorðinn sextán ára, skoraði hann fyrsta markið sitt í meistaraflokki og varð þar með yngsti markaskorari Njarðvíkur.

Þessi eldfjóti framherji stendur nú í eldlínunni með liði sínu í toppbaráttu Lengjudeildarinnar.

Freysteinn var sex ára gamall þegar hann byrjaði að æfa fótbolta og segist hafa prófað fleiri íþróttagreinar.

„Ég var samt aðallega í fótbolta og körfubolta þangað til ég var svona tólf ára, þá hætti ég í körfuboltanum og fór að einbeita mér að fótboltanum,“ segir hann þegar Víkurfréttir ræddu við hann í byrjun vikunnar.

„Ég hef alltaf verið gallharður Njarðvíkingur en mamma er frá Akureyri og þegar ég var lítill og við fórum til Akureyrar á sumrin þá æfði ég með KA. Annars hef ég alltaf bara verið Njarðvíkingur.“

Eldfljótur framherji

Hefurðu alltaf verið í sókninni?

„Í yngri flokkum var ég varnarmaður, vinstri bakvörður. Síðan fór ég á miðjuna en síðustu svona fimm, sex ár hef ég verið framherji. Hraðinn minn er einn af mínum styrkleikum og ég verð að nýta mér hann eins vel og ég get.“

Nú hefur þú haft nokkra þjálfara á ferlinum, hvaða þjálfari hefur kennt þér mest?

„Ég hef lært mikið af öllum þeim frábæru þjálfurum sem ég hef haft hjá Njarðvík, ég hef t.d. bætt mig mikið hjá Gunnari Heiðari síðastliðið ár. Ég verð samt líka að nefna Lúlla og Ólaf Inga hjá landsliðinu, þeir hafa kennt mér mjög mikið, sérstaklega varðandi varnarleik.“

Þú varðst yngsti leikmaðurinn í sögu Njarðvíkur þegar þú varst ekki nema fjórtán ára gamall. Manstu vel eftir leiknum?

„Já, það var á móti Ægi heima í annarri deildinni. Við unnum sex núll.“

Svo skoraðir þú fyrsta markið gegn Grindavík í fyrra. Það hlýtur að hafa verið sætt.

„Það var bara mjög góð tilfinning að skora mitt fyrsta mark í Íslandsmóti – og líka á heimavelli.“

Freysteinn Ingi fagnar fyrsta markinu fyrir Njarðvík sem hann skoraði í leik gegn Grindavík á síðasta tímabili.

Hefur vakið áhuga út fyrir landsteinana

Freysteinn hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands síðustu ár og hefur ferðast með landsliðinu til Færeyja, Möltu, Ungverjalands, Írlands og Finnlands. Þá hefur honum einnig verið boðið til æfinga með erlendum félagsliðum.

„Það er alltaf góð upplifun að prófa að æfa með liðum úti. Það er mikill munur að fara út að æfa. Ég hef farið tvisvar til Danmerkur og einu sinni til Þýskalands, ég fór til Þýskalands í mars á þessu ári og mér finnst mikill munur á aðstæðum þarna úti og hér heima. Mér finnst líka gaman að prófa nýja hluti og það gerir mig klárlega að betri leikmanni að fá tækifæri til að prófa svona.“

Freysteinn í leik með U15 landsliði Íslands gegn Færeyjum. Ljósm.: Hans Erik Danielsen


Þú stefnir væntanlega á atvinnumennsku við fyrsta tækifæri.

„Það er alltaf stefnan en í dag er ég bara að fókusa á Njarðvík og að standa mig vel þar. Svo kemur hitt bara seinna.“

Þið Njarðvíkingar hófuð mótið af miklum krafti en misstuð svo aðeins dampinn en eruð í hörkuséns núna. Það er rosalega spennandi staðan í deildinni núna þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Já, það eru allir leikir núna fiftí-fiftí. Þetta er mjög spennandi og við ætlum klárlega að koma okkur upp, það er markmiðið okkar. Njarðvík hefur aldrei spilað í efstu deild og besti árangurinn er sennilega sjötta sætið í Lengjudeildinni, þannig að við förum að toppa einhver met ef við förum hærra en það.

Byrjum á því að komast í þessi playoffs og svo sjáum við hvað gerist eftir það. Næsti leikur er úti gegn Aftureldingu en svo tökum við á móti Keflavík á Ljósanótt – það verður eitthvað,“ sagði Freysteinn að lokum og er augljóslega spenntur fyrir nágrannaslagnum sem skiptir bæði lið gríðarlega miklu máli.