Íþróttir

Enn eitt jafnteflið hjá Grindavík
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindvíkinga, lék sinn 100. leik fyrir félagið í kvöld. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 21. júlí 2020 kl. 23:27

Enn eitt jafnteflið hjá Grindavík

Grindvíkingar gerðu fjórða jafnteflið í sjö leikjum í kvöld þegar þeir mættu Aftureldingu á Grindavíkurvelli. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, bæði með níu stig, og sátu í sjöunda til áttunda sæti Lengjudeildar karla. 

Það voru Grindvíkingar sem byrjuðu leikinn betur og komust yfir strax á 2. mínútu þegar Sigurður Bjartur Hallsson afgreiddi boltann í netið. En Adam var ekki lengi í Paradís og á 8. mínútu náði Afturelding góðri sókn sem endaði með marki. Staðan 1:1 í hálfleik.

Í seinni hálfleik unnu Grindvíkingar sig betur inn í leikinn en þrátt fyrir að hafa komist yfir í byrjun leika var Afturelding betra liðið framan af. Grindavíkingar uppskáru þegar þeir fengu hornspyrnu á 67. mínútu, upp úr henni barst boltinn út í teig til Stefáns Inga Sigurðssonar sem skoraði með óverjandi skoti í samskeytin, stórglæsilegt mark og Grindvíkingar aftur komnir yfir.

Eftir því sem leið á leikinn pressaði Afturelding meira en það var útlit fyrir að heimamenn myndu landa sigri – þar til í uppbótartíma þegar Afturelding náði loks að jafna (91’) og úrslit leiksins 2:2.

Bæði lið fengu færi til að gera út um leikinn, gestirnir kannski þó ívið fleiri, en sennilega er hægt að segja að úrslitin hafi verið sanngjörn.

Alexander og Gunnar í 100 leikja hópinn

Fyrir leik voru þeir Alexander Veigar Þórarinsson og Gunnar Þorsteinsson, leikmenn Grindavíkur, heiðraðir fyrir að hafa leikið 100 leiki í deild og bikar fyrir Grindavík.

Alexander náði þessum áfanga á síðasta tímabili en Gunnar lék sinn 100. leik í leiknum í kvöld.