Íþróttir

Eru peppaðar að taka næstu þrjá leiki
Anita Lind í leik gegn FH fyrir skemmstu. VF/Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 31. ágúst 2024 kl. 06:07

Eru peppaðar að taka næstu þrjá leiki

Keflavík er í erfiðri stöðu þegar úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu fer af stað um næstu helgi. Fjögur lið eru í úrslitunum; Stjarnan, Tindastóll, Fylkir og Keflavík. Stjarnan sker sig svolítið úr í hópnum en Stjörnukonur eru með 21 stig og hafa því gott forskot á hin þrjú liðin, Tindastóll er með 13 stig en Fylkir og Keflavík 10 stig hvort. Keflvíkingar þurfa því tvo sigra hið minnsta til að halda sæti sínu í deild hinna bestu á næsta ári.

Anita Lind Daníelsdóttir hefur verið ein af sterkustu stoðum Keflavíkurliðsins í ár og Víkurfréttir heyrðu í henni og tóku stöðuna á Keflavíkurliðinu fyrir þessa þrjá mikilvægu leiki sem eru eftir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er alls engin uppgjöf í hópnum og ég held að við séum allar mjög vel stemmdar í þetta. Peppaðar að taka næstu þrjá leiki,“ segir Anita Lind þegar hún er spurð út í úrslitakeppnina sem er framundan.

Keflavík gerði jafntefli við Tindastól um síðustu helgi og þessi lið mætast að nýju í fyrstu umferð úrslita neðri hluta Bestu deildar kvenna um næstu helgi.

„Við förum aftur norður um næstu helgi og það kemur ekkert annað til mála en að taka þrjú stig þá.

Við vorum betri og komum marki inn í fyrri hálfleik í síðasta leik en seinni var nokkuð jafn svo úrslitin voru kannski sanngjörn.

Hvaða leynivopni lumið þið á?

„Við erum hraðar fram á við og þurfum bara að klára sóknirnar okkar. Við erum með góða kantmenn sem eru eldsnöggar, við þurfum bara að ná að finna þær. Svo er það síðasta touchið ... og að halda hreinu líka. Við töpum ekki leik ef við höldum hreinu.“

Þjálfaraskipti

Hvernig er andinn í hópnum núna eftir að Jonathan var látinn fara og Guðrún Jóna tók við liðinu? Hefur það þétt hópinn saman?

„Ég myndi segja að þetta hafi verið pínku sjokk fyrir mig allavega, ég átti ekki von á þessu, en ég held að þessi breyting geti ekki komið til með að gera neitt neikvætt. Við erum allavega mjög vel stemmdar og Jóna er búin að vera mjög jákvæð og hefur farið vel af stað þessa fyrstu daga sem aðalþjálfari.

Hún er hörkugóður þjálfari og núna fær hún kannski að láta ljós sitt skína meira heldur en þegar hún var aðstoðarþjálfari. Hún er reynslubolti.“

Þið þurfið að komast upp fyrir bæði Tindastól og Fylki, þetta verða hörkuleikir.

„Þeir verða það. Við ætlum bara að taka einn leik í einu og ná í þrjú stig um næstu helgi, svo förum við að pæla í næsta leik eftir það. Við einbeitum okkur bara að okkar leik.“