Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Íþróttir

Gamalkunnur markmaður næstur í pontu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 25. janúar 2025 kl. 16:15

Gamalkunnur markmaður næstur í pontu

Handboltakempan Einar Skaftason var líklega með hugann of mikið við HM í handknattleik sem nýlega er hafið, alla vega tókst honum ekki að halda velli gegn áskorandanum Jóni Ragnari Magnússyni og fóru leikar 8-9. Einar hefur því lokið leik og er eins og svo margir í leiknum, með sautján rétta í heildina.  Fyrrum markmaður Reynis, Víðis, Keflavíkur og Hafna, og mikill aðdáandi Leeds United í enska boltanum, Jón Örvar Arason, er næstur á mælendaskrá en þar fer einkar metnaðarfullur tippari og verður fróðlegt að sjá hvort ungstirnið sem á sviðið núna, heldur velli gegn þessari gömlu kempu.

Jón Örvar er Sandgerðingur og þar hófst markmannsferillinn

„Pabbi var að þjálfa okkur og henti mér fljótlega í markið, ég var kannski full þéttur á velli til nýtast annars staðar en í markinu. Ég er af hinum rómaða ‘59 árgangi sem var mjög öflugur og urðum við til að mynda tvisvar sinnum bikarmeistarar í öðrum flokki. Mér var hent í djúpu meistaraflokkslaugina 1975 þegar ég var 16 ára gamall og lék með Reyni fram til 1980 þegar Keflvíkingar voru í tímabundnum markmannavandræðum, þrátt fyrir að eiga þrjá frábæra í Þorsteinunum tveimur og Bjarna Sig. Steini Bjarna kom svo til baka úr atvinnumennsku um mitt sumar 1980 og ég fór aftur til Reynis eftir það tímabil. Ég þjálfaði síðan Hafnir í tvö ár og spilaði með þeim, gekk svo til liðs við Víðismenn 1986 en þá voru Víðismenn í efstu deild og við Gísli Heiðars skiptum markmannsstöðunni nokkuð bróðurlega á milli okkar. Ef annar okkar gerði mistök, var hinn kominn inn í næsta leik en þetta var frábær tími með Víðismönnum, toppnum hugsanlega náð þegar við náðum alla leið í bikarúrslitin 1987. Það var athyglisvert að við slógum KR-inga út í 8-liða úrslitum en þeir voru efstir í deildinni á þeim tímapunkti, tókum Valsmenn í undanúrslitum og þá voru þeir efstir, en steinlágum svo fyrir Fram í úrslitaleiknum en þeir voru þá orðnir efstir. Fyrri tvo bikarleikina unnum við á heimavelli okkar í Garðinum en kannski var Laugardalsvöllurinn of stórt svið fyrir okkur, við náðum okkur aldrei á strik en ég lék þann leik, sem er ennþá stærsti sigur í úrslitaleik bikarkeppninnar á Íslandi. Ég endaði síðan ferilinn með Keflavík, lék minn síðasta leik 43 ára gamall árið 2002 og var svo markmannsþjálfari og svo liðsstjóri en knattspyrnukaflanum lauk svo árið 2022.

Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um enska boltann og Leeds alltaf mitt lið. Þeir voru á meðal þeirra bestu þegar ég byrjaði að styðja þá um átta ára aldurinn og þar sem þeir voru í hvítum búningum eins og Reynir, var þetta aldrei spurning. Við erum efstir í deildinni og stefnum upp og mikið agalega yrði gaman að vinna þennan tippleik og sjá mína menn í bikarúrslitunum á Wembley! Eigum við ekki að segja að draumaúrslitlaleikurinn sé á milli þessara grannaliða, Leeds og Man Utd en sagan segir að þarna á milli sé mesti rígurinn á milli liða á Bretlandseyjum,“ segir Jón Örvar.

Ætlar sér alla leið

„Þetta var góður og spennandi leikur á milli mín og Einars og vil ég þakka honum fyrir drengilega keppni. Ég er alveg ákveðinn í að skella mér á Wembley í vor og finnst eins og það sé skrifað í skýin að mínir menn í Liverpool verði annað liðanna.

Ég ætla samt að halda mér á jörðinni, ég þarf að byrja á að brjótast úr þessum fasa sem fjölmargir tipparar hafa lent í í vetur, að vinna bara einu sinni og vera með 17 rétta. Það verður fróðlegt fyrir ykkur á Víkurfréttum að skera úr um hver þessara tippara með 17 rétta eigi að fá sæti í úrslitunum. Ég ætla mér að að auka ekki á þennan hóp, geri það með því að vinna á laugardaginn og svo tökum við einn dag í einu eftir það,“ sagði Jón Ragnar.