Íþróttir

Gibbs með „hat-trick“ og Keflavík á toppinn
Joey Gibbs raðar inn mörkum fyrir Keflavík. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 15. ágúst 2020 kl. 18:36

Gibbs með „hat-trick“ og Keflavík á toppinn

Keflvíkingar léku á alls oddi gegn Magna á Grenivík í Lengjudeild karla í dag. Það var ljóst frá upphafi hverjir væri sterkari aðilinn í leiknum og á 10. mínútu skoruðu Keflvíkingar fyrsta markið, þar var að verki Ari Steinn Guðmundsson eftir fyrirgjöf frá Joey Gibbs.

Á 25. mínútu fékk Keflavík víti eftir að brotið var á Sindra Þór Guðmundssyni, Joey Gibbs skoraði úr vítinu örugglega og staðan 0:2 fyrir Keflavík.

Keflvíkingar slógu ekkert af og áður en flautað var til leikhlés hafði Gibbs skorað annað mark sitt (39') og þriðja mark Keflvíkinga sem leiddu 0:3 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst eins og þeim síðari lauk, Keflvíkingar stjórnuðu leiknum og á 60. mínútu fullkomnaði Gibbs þrennuna með góðu marki.

Með ægilega fjögura marka forystu sofnaði vörn Keflavíkur lítillega og Magnamenn náðu að minnka muninn á 64. mínútu, lengra komust þeir þó ekki og 4:1 sigur Keflavíkur hefði hæglega getað orðið mun stærri.

Keflavík í efsta sæti

Með sigrinum er Keflavík nú eitt á toppi Lengjudeildarinnar þar sem bæði Leiknir Reykjavík og ÍBV gerðu jafntefli í sínum leikjum. ÍBV gegn Fram sem er í fjórða sæti deildarinnar og var með jafn mörg stig og Keflavík fyrir leiki umferðarinnar.

Joey Gibbs heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Keflavík og er markahæstur í deildinni með ellefu mörk, Gary Martin hjá ÍBV er næstur með níu mörk.