Íþróttir

Grindavík gerði jafntefli við Aftureldingu
Unnur Stefánsdóttir kom Grindavík yfir með marki í seinni hálfleik. Mynd úr safni Víkurfrétta
Föstudagur 7. maí 2021 kl. 11:03

Grindavík gerði jafntefli við Aftureldingu

Grindavík hóf leik í gær í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu en Grindvíkingar eru nýliðar í deildinni. Leikurinn fór fram í Mosfellsbænum og lyktaði með jafntefli, 2:2.

Grindavíkingar lentu undir á 21. mínútu en fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik. Grindvíkingar gerðu þrefalda skiptingu í hálfleik og sú breyting bar árangur tíu mínútum síðar þegar Viktoría Sól Sævarsdóttir jafnaði leikinn (56').

Fjórða skipting Grindvíkinga var gerð á 66. mínútu og fimm mínútum síðar komust þær yfir með marki frá Unni Stefánsdóttur (71').

Afturelding náði þó að jafna leikinn á 83. mínútu og niðurstaðan því jafntefli.

Vefmiðillinn Fótbolti.net birti spá þjálfara og fyrirliða þar sem nýliðum Grindavíkur ekki spáð góðu gengi í Lengjudeildinni í ár en þær ætla ekki að taka mark á því enda er spá bara spá.