Helgi Hafsteinn til reynslu hjá AaB
Hinn efnilegi knattspyrnumaður frá Grindavík, Helgi Hafsteinn Jóhannsson fór á dögunum til Danmerkur, n.t. til Álaborgar þar sem hann var til reynslu hjá Úrvalsdeildarliðinu AaB. Helgi sem er fæddur árið 2008 og er á yngra ári í 3. flokki, á ekki langt að sækja knattspyrnuhæfileika sína en foreldrar hans eru þau Jóhann Helgason og Margrét Pétursdóttir sem bæði léku með meistaraflokki Grindavíkur en Jóhann lék auk þess með KA þaðan sem hann er uppalinn og Val.
Helgi Hafsteinn var ánægður með þessa vikudvöl í Danmörku. „Pabbi sagði mér frá áhuga Aab og við fjölskyldan fórum í vikutíma. Ég mætti á fjórar æfingar og spilaði einn æfingaleik, mér gekk vel í leiknum og skoraði eitt mark en því miður töpuðum við leiknum 4-2. Við sáum líka einn leik hjá aðalliðinu. Ég var að æfa með u-17, strákum sem eru jafngamlir mér og einu ári eldri. Við fórum á fund í lokin og þar var mér sagt hvað ég gerði vel og hvað ég þurfi að bæta, félagið verður svo bara í sambandi við pabba.
Sumarið hefur gengið ágætlega, við í 3. flokki erum í C-riðli og eigum möguleika á að komast upp. Draumurinn hjá mér hefur alltaf verið að gerast atvinnumaður, ég ætla að halda áfram að æfa mig og bæta og vonandi mun draumurinn verða að veruleika einhvern tíma. Ef ég fengi að velja mér lið, yrði það lið á Spáni, annað hvort Barcelona eða Real Madrid. Uppáhaldsliðið í enska boltanum er Manchester City. Pabbi bauð mér á leik með þeim og þá fór ég bara að halda með þeim, hann heldur sjálfur með Arsenal og hver veit nema ég hefði haldið með þeim ef pabbi hefði boðið mér á leik með Arsenal,“ sagði þessi efnilegi knattspyrnumaður að lokum.