Íþróttir

Íþróttamaður ársins valinn í Vogum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 8. janúar 2025 kl. 15:50

Íþróttamaður ársins valinn í Vogum

Hvatningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga 2024

Akstursíþróttamaðurinn Valdimar Kristinn Árnason hlaut titilinn íþróttamaður ársins 2024 í Sveitarfélaginu Vogum. Verðlaunaafhending fór fram í Tjarnarsal þann 6. janúar síðastliðinn og voru hvatningarverðlaun sveitarfélagsins veitt við sama tilefni.

Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri, bauð gesti velkomna og flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi íþrótta- og félagsstarfs sveitarfélaginu. Guðmann Rúnar Lúðvíksson, formaður frístunda- og menningarnefndar, afhenti verðlaunin sem og viðurkenningar til þeirra sem hlutu tilnefningar til íþróttamanns ársins 2024.

Í tilefni viðburðarins var boðið upp á fallegt tónlistaratriði sem var flutt af tríóinu, Magdalenu Högnadóttur, Birnu Rán Hilmarsdóttur og Bent Marínósyni. Flutningurinn gerði gæfumuninn enda upprennandi tónlistarmenn á ferðinni sem gerðu athöfnina enn eftirminnilegri.

Viðburðurinn heppnaðist mjög vel og endurspeglaði mikilvægi þess að heiðra afrek, eldmóð og samfélagslega þátttöku. Viðburðurinn var ekki aðeins til þess að fagna árangri síðasta árs heldur til að blása íþróttamönnum okkar metnað í brjóst í byrjun á nýju og spennandi íþróttaári.

Íþróttamaður ársins 2024

Íþróttamaður ársins, Valdimar Kristinn Árnason, átti glæsilegt keppnisár í rallycrossi. Hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari í unglingaflokki, sem er fjölmennasti og mest krefjandi keppnisflokkurinn í greininni, og er Valdimar eini íslenski keppandinn fyrr og síðar sem nær þeim árangri.

Valdimar var ekki einungis öflugur við aksturinn heldur hannaði hann einnig og smíðaði keppnisbíl sinn sjálfur.

Aðrir sem voru tilnefndir til íþróttamanns ársins 2024:

Pétur Már Ólafsson, skotíþróttamaður.
Pétur vann Íslandsmeistaratitil í BR50 Light Rifle flokki og setti Íslandsmet á heimsmeistaramóti í Hunter Class.

Jóhann Þór Arnarsson, knattspyrnumaður með Þrótti Vogum.
Jóhann skaraði fram úr sem markaskorari og með stóru framlagi til liðsins í annarri deild karla.

Magnús Már Traustason, körfuknattleiksmaður með Þrótti Vogum.
Magnús er þekktur fyrir framúrskarandi skotnýtingu og leiðtogahæfileika og var einn öflugasti leikmaður körfuknattleiksliðs Þróttar sem komst í átta liða úrslit fyrstu deildar karla á síðasta ári.

Frá vinstri. Pétur Már Ólafsson, Marteinn Ægisson tók við tilnefningu Magnúsar Más Traustasonar, Jóhann Þór Arnarsson, Logi Friðriksson tók við tilnefningu Valdimars Kristins Árnasonar.

Hvatningarverðlaun 2024:

Hvatningarverðlaunin voru veitt tveimur efnilegum einstaklingum sem skarað hafa fram úr fyrir árangur, eldmóð og framlag til íþróttar sinnar:

Elías Ármann Gunnarsson, sem hefur unnið einstakt starf í rafíþróttum og sjálfboðaliðastarfi. Elías hefur verið fyrirmyndarliðsfélagi, auk þess að taka virkan þátt í starfi Ungmennafélagsins Þróttar og ungliðahreyfingar Björgunarsveitarinnar Skyggnis.

Dilanas Sketrys er mjög efnilegur körfuknattleiksmaður sem leikur með Aftureldingu. Hann var valinn í U15 landslið karla og lykilmaður í fyrsta Íslandsmeistaratitli níunda flokks Aftureldingar. Hann var einnig valinn mikilvægasti leikmaður (MVP) úrslitakeppninnar.