Íþróttir

Kári tryggði Keflavík dramatískan sigur í uppbótartíma
Kári Sigfússon gerði virkilega vel þegar hann skoraði glæsilegt úrslitamark á fyrstu mínútu uppbótartíma gegn Þór frá Akureyri. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 31. júlí 2024 kl. 21:27

Kári tryggði Keflavík dramatískan sigur í uppbótartíma

Keflavík vann góðan iðnaðarsigur á Þór frá Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu á HS Orkuvellinum í kvöld. Þetta var sveiflukenndur en jafn leikur sem fór fram við erfiðar aðstæður og bæði lið gátu gert tilkall til sigursins.

Keflvíkingar fagna sigurmarki Kára í kvöld.

Keflavík - Þór 3:2

Keflvíkingar höfðu vindinn með sér í fyrri hálfleik og náðu forystu á sjöundu mínútu með marki Oleskli Kovtun eftir hornspyrnu. Þórsarar jöfnuðu leikinn um tíu mínútum síðar (16’) og þar var fyrrum Njarðvíkingurinn Rafael Victor að verki.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Mihael Mladen kom Keflavík yfir öðru sinni eftir að Guðjón Pétur Stefánsson stökk manna hæst og skallaði fyrirgjöf Ara Steins Guðmundssonar í stöngina. Boltinn hrökk fyrir fætur Mladen sem þurfti aðeins að leggja hann í markið (33’).

Annað mark Keflvíkinga. Guðjón Pétur með góðan skalla í stöngina og Mladen fylgdi vel á eftir.

Staðan 2:1 í hálfleik en gestirnir mættu mun ákveðnari í seinni hálfleikinn, augljóslega staðráðnir í að jafna metin.

Það gekk eftir á 63. mínútu þegar Þórsarar léku laglega í gegnum vörn heimamanna og Aron Ingi Magnússon lauk sókninni með góðu skoti í fjærhornið. Ásgeir Orri Magnússon, markvörður Keflavíkur, var hársbreidd frá því að verja en hann náði að slengja höndinni í boltann en inn fór hann samt.

Við það að lenda undir öðru sinni lifnaði heldur yfir Keflvíkingum og þeir virtust ákveðnari í að ljúka leiknum með sigri og þegar komið var fram í uppbótartíma fékk Kári Sigfússon boltann úti vinstra megin, sneri sér laglega framhjá varnarmanni Þórs og skrúfaði boltann snyrtilega í fjærhornið (90’+1).

Aron Birkir Stefánsson, í marki Þórs, átti enga möguleika á að verjast góðu skoti Kára.

Sætur sigur í uppsiglingu hjá heimamönnum en Kári var ekki hættur. Aðeins tveimur mínútum eftir markið slapp hann einn í gegn en Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórs, gerði vel maður á móti manni og varði frá Kára. Boltinn hrökk aftur til Kára sem sendi fyrir markið á Rúnar Inga Eysteinsson en honum brást bogalistinn og skallaði framhjá nánast auðu markinu.

Engu að síður lönduðu Keflvíkingar sterkum sigri og eru komnir í fjórða sæti deildarinnar, einu stigi á eftir grönnum sínum í Njarðvík en Njarðvík mætir ÍBV úti í Eyjum á laugardag.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttamaður Víkurfrétta, fylgdist með leik Keflavíkur og Þórs og ræddi við Sindra Snæ Magnússon eftir leik. Viðtal og myndir eru í vinnslu og birtist á vef Víkurfrétta innan skamms.

Keflavík - Þór (3:2) | Lengjudeild karla 31. júlí 2024