Viðreisn
Viðreisn

Íþróttir

Keflavík í bikarúrslit eftir öruggan sigur gegn Stjörnunni í Laugardalshöllinni
Remy Martin var maður leiksins.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 19. mars 2024 kl. 21:09

Keflavík í bikarúrslit eftir öruggan sigur gegn Stjörnunni í Laugardalshöllinni

Keflvíkingar voru fyrstir Suðurnesjaliðanna til að mæta í bikarviku KKÍ í Laugardalshöllinni en þeir mættu Stjörnumönnum í síðari undanúrslitaleiknum karlamegin. Fyrr um daginn höfðu Tindastólsmenn unnið öruggan sigur á Álftnesingum, 90-72. Keflavík vann öruggan sigur, 113-94 eftir að hafa leitt í hálfleik, 51-40.

Það fyrsta sem blaðamaður gerði eftir að hann horfði yfir leikmannahóp Keflavíkurliðsins og í ljós kom að fyrirliðinn Halldór Garðar Hermannsson var í búningi, var að skoða hárvöxt þjálfarans Péturs Ingvarssonar. Í viðtali fyrir bikarvikuna sagði Pétur að stundum myndu kraftaverk gerast, Jesús hefði náð að láta blinda fá sýn og ef hann myndi kíkja við hjá Halldóri, blessa hann og koma honum í stand fyrir leikinn, myndi hann láta Sússa færa sér hár aftur á höfuðið.

Fyrir leikinn var auðvelt að gera ráð fyrir öruggum Keflavíkursigri, þeir hafa verið mjög góðir í allan vetur á meðan Stjarnan hefur ekki náð sér á strik og er líklega utan úrslitakeppninnar sem er rétt handan við hornið. En ef vel var að gáð og rýnt í söguna, blasti við ótrúleg staðreynd um bikargæfu Stjörnumanna. Það var fyrst í fyrra sem þeir töpuðu úrslitaleiknum en þá voru þeir búnir að vinna bikarinn síðan ´18/´19 tímabilið, þ.e. að segja þegar bikarkeppnin var leikin með hefðbundnu sniði. Tímabilið ´20/´21 var bikarkeppnin leikin síðla sumars vegna COVID-tengdra ástæðna, þá voru það Njarðvíkingar sem unnu bikarinn. Stjörnumenn unnu síðan árið 2022 en töpuðu eins og áður sagði í úrslitaleik í fyrra á móti Val eftir hörkuleik. Þar áður höfðu Stjörnumenn komið gríðarlega á óvart árið 2009 og unnu hið stjörnumprýdda lið KR-inga með Jón Arnór Stefánsson í broddi fylkingar, nýkominn heim í pásu frá atvinnumennskunni. Stjörnumenn endurtóku svo leikinn árið 2013, unnu þá Grindvíkinga í úrslitaleik.

Viðreisn
Viðreisn

Keflvíkingar hafa alls unnið bikar sex sinnum, síðast árið 2012, það var heldur betur kominn tími á Keflvíkinga að færa sig nær þeim gulllitaða.

Keflvíkingar voru ekki einu Suðurnesjamennirnir á vellinum, tveir af þremur dómurum leiksins eru það líka, þeir Sigmundur Már Herbertsson frá Njarðvík og Sigurbaldur Frímannsson áttu góðan leik með flautuna ásamt Gunnlaugi Briem (ekki trommuleikarinn).

Stjörnumenn byrjuðu leikinn ívið betur og eftir tæpar fjórar mínútur var staðan 6-10 fyrir þá. Keflvíkingar áttu erfitt með að finna góð sóknarfæri og þurftu að taka erfið skot. Undir slíkum kringumstæðum er gott að vera með leikmann sem býr yfir gríðarlegum sóknarhæfileikum, Remy Martin náði að brjóta sér leið upp að körfunni í næstu þremur sóknum og klára og í öllum skiptunum gaf hann Suðurnesjamönnunum með flautuna ekkert sérstaklega fallegt augnráð, hann vildi fá villu. Remy setti síðan þrist, svo tvist og staðan orðin 16-17, Remy búinn að skora 14 af stigum Keflvíkinga! Stjörnumenn voru áfram með frumkvæðið þar til Marek Dolezaj setti tvo þrista og Igor Maric einn og Keflvíkinar allt í einu komnir með forystu eftir fyrsta fjórðung, 27-24.

Keflvíkingar byrjuðu annan leikhlutann betur og eftir nokkrar mínútur var Arnari Guðjónssyni, þjálfara Stjörnunnar, nóg boðið og hann tók leikhlé, hann hafði æst sig nokkuð fram að þessu en hárþurrkan hans skilaði sínu, næstu sjö stig voru Stjörnumanna og staðan orðin 32-36. Á þessum tíma var Remy með full mikla einstaklingstilburði og lét t.d. stela af sér boltanum eftir miklar fintur og Pétur kippti honum fljótlega út af. Stíflan gaf sig loksins og Marek skoraði og fékk auk þess villu og nýtti vítið. Remy kom síðan inn á og setti tvö stig, Marek setti svo þrist og spurning hvort það væri áhyggjuefni fyrir Keflvíkinga en á þeim tímapunkti voru tveir leikmenn búnir að skora 32 stig af 40. Í þeim skrifuðu orðum virtust aðrir Keflvíkingar taka við sér, Sigurður Péturs setti flottan tvist og Igor Maric svo þrist og allt í einu voru Keflvíkingar komnir með 11 stiga forystu, 47-36. Stjörnumenn fengu síðan dæmd á sig skref og urðu algerlega brjálaðir og fengu tæknivillu í verðlaun. Hvort Finninn Antti Kanervo nýtti sér hið svokallaða Evrópuskref skal ósagt látið. Stjörnumenn áttu samt lokasprettinn og komu muninum niður sjö stig áður en Remy Martin setti tvö víti og Keflavík labbaði inn í hálfleikinn með 50-41 forystu.

Tveir leikmenn voru langsamlega atkvæðamestir hjá Keflvíkingum, Remy Martin með 20 stig og Marek Dolezaj með 16. Blaðamanni finnst gaman að spá í tölfræðina, sérstaklega hinn svokallaða +/- dálk, þessi tölfræði segir til um hvernig liðið var að spila á meðan viðkomandi leikmaður var inn á. Keflavík vann með 4 stigum á meðan Remi var inn á en með 18 stigum á meðan Marek var inn á. Remy hangir of mikið á boltanum að mati blaðamanns en Marek nýtti sín skot mjög vel, var með ⅝ og þar af ¾ fyrir utan þriggja stiga línuna og greinilega var Keflavíkurliðið að spila best á meðan hans naut við.

Hjá Stjörnumönnum var dreifðara stigaskor, einungis Ægir Þór Steinarsson kominn yfir hinn margrómaða tveggja stafa múr, með 11 stig.

Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn 8-0 og m.a. setti Remy tvo þrista sem voru ansi nálægt miðjulínunni, ótrúlegur leikmaður! Arnar tók leikhlé og aftur svöruðu hans menn ræðunni, 8-0 kafli fylgdi en títtnefndur Remy setti sinn þriðja þrist, 61-49 fyrir Keflavík. Eins og sjá má á þessari lýsingu var Remy gersamlega á eldi, í stöðunni 66-55 var hann kominn með 32 stig og fjórar stoðsendingar. Tveir þristar fylgdu í kjölfarið og ljóst að Keflavík væri á leið aftur í Laugardalshöllina á laugardaginn. Stjörnumenn virtust vera heillum horfnir en furðulegt atvik átti sér stað, leikmaður þeirra átti þrist sem var ansi fjarri og snerti ekki körfuhringinn, Marek hljóp fram í hraðupphlaup en fékk dæmda á sig tæknivillu, fyrir hvað gat blaðamaður ekki séð. Ekki nóg með það, Halldór Hermann fékk líka tæknivillu, líka frá Sigurbaldi dómara. Ægir settir bæði vítin og Stjörnumenn settu tvo þrista og allt í einu var munurinn kominn niður í viðráðanlega tölu. Keflvíkingar svöruðu hins vegar að bragði, áttu lokasprett fjórðungsins, 84-67 staðan að honum loknum.

Ekki nema fyrrnefndur Jesús myndi bænheyra Stjörnumenn en ekki Pétur og einn lærisveina hans, var nokkuð ljóst að þessi leikur var gott sem búinn. Stjörnumenn byrjuðu samt betur í lokaleikhlutanum en það sást langar leiðir að Keflvíkingar voru ekki að fara láta þetta tækifæri á farseðli í úrslitaleikinn úr greipum sér ganga. Þeir töpuðu í fyrra í undanúrslitum, einmitt fyrir Stjörnumönnum og blaðamaður man eftir þegar þeir töpuðu mjög óvænt fyrir Fjölni í 8-liða úrslitum árið 2020, þá með lið sem þótti líklegt til að vinna allt sem var í boði. Alltaf þegar Stjörnumenn gerðu áhlaup, komu til að mynda muninum niður í 12 stig og voru klaufar að skora ekki úr sniðskoti og rúmar fjórar mínútur eftir, komu Keflvíkingar með þrist sem slökkti vonina. En samt, þessi leikur er jú svo skemmtilegur og ótrúlegir hlutir geta gerst á örskömmum tíma, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir munaði bara 12 stigum, annað eins hefur sést þurrkast út en Keflvíkingar voru einfaldlega of sterkir og sigldu öruggum sigri heim, 113-94.

Það er líklega erfitt að horfa fram hjá Remy Martin varðandi mann leiksins, hann skoraði 39 stig og gaf 6 stoðsendingar. Sumar körfunnar hans voru ótrúlegar og einhvern veginn hafði maður alltaf á tilfinningunni þegar Stjörnumenn voru að reyna áhlaup, að þá myndi hann draga enn eitt trompið úr ermi sinni. Eitthvað segir manni að þeim mun stærra sem sviðið er, þeim mun betur njóti hann sín, það er góðs viti fyrir Keflvíkinga fyrir laugardaginn. Marek Dolezaj var mjög góður, skoraði 26 stig og tók 6 fráköst. Var áfram langhæstur í +/- með 33. Igor Maric setti 13 stig, þar af 4/7 í þristum og Jaka Brodnik setti sín 11 stig í seinni hálfleik.

Keflvíkingar þar með komnir í úrslitaleikinn og á morgun kemur í ljós hvort stallsystur þeirra fylgi þeim í Laugardalshöllina á laugardaginn en þær mæta nágrönnum sínum í Njarðvík í undanúrslitum í Laugardalshöllinni á morgun og hefst leikurinn kl. 17:15. Kl. 20 mæta svo Grindavíkurkonur Þór frá Akureyri á sama stað.

Keflvískir stuðningsmenn létu sig ekki vanta og studdu sína menn vel.