HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Keflavík og Njarðvík unnu sína leiki í Subway karla
Dominykas Milka var heitur í gær með nítján stig og ellefu fráköst. Mynd úr safni VF
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 14. október 2022 kl. 09:22

Keflavík og Njarðvík unnu sína leiki í Subway karla

Keflavík gerði góða ferð í Garðabæ í gær og unnu sigur á Stjörnunni í Subway-deild karla í körfuknattleik. Á sama tíma héldu Njarðvíkingar austur á Hérað þar sem góður sigur vannst á Hetti

Stjarnan - Keflavík 86:92

(23:21, 15:18, 21:26, 27:27)

Keflvíkingar léku á alls oddi í Garðabæ í gær og sýndu að þeir eiga sannarlega erindi í toppbaráttuna í vetur. Eftir tvo sigra á móti erfiðum andstæðingum í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins má sjá að hópurinn er til í slaginn, liðið nær vel saman og breiddin er góð.

Optical Studio
Optical Studio

Eric Ayala og Dominykas Milka voru atkvæðamiklir hjá Keflavík í gær, Ayala með tuttugu stig og átta fráköst og Milka nítján stig og ellefu fráköst, en almennt áttu leikmenn Keflavíkur góðan dag. Leikurinn var jafn og skemmtilegur og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta að Keflavík tókst að rífa sig frá Stjörnunni og ná sautján stiga forskoti (65;82). Heimamenn gáfu allt í síðustu mínúturnar og náðu að jafna (86:86) en þá setti Keflavík í lás og kláraði leikinn.

Keflavík: Eric Ayala 20/8 fráköst, Dominykas Milka 19/11 fráköst, Jaka Brodnik 14, Igor Maric 14, Halldór Garðar Hermannsson 7, Ólafur Ingi Styrmisson 6/7 fráköst, Horður Axel Vilhjalmsson 5/10 stoðsendingar, Magnús Pétursson 3, David Okeke 2, Valur Orri Valsson 2, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Arnór Sveinsson 0.

Dedrick Basile sá til þess að Njarðvík landaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu með góðum leik í gær.

Höttur - Njarðvík 86:91

(16:30, 23:11, 24:21, 23:29)

Njarðvíkingar keyrðu leikinn gegn Hetti í gang með látum í gær og náðu sautján stiga forystu í fyrsta leikhluta (11:28). Njarðvík leiddi með fjórtán stigum að loknum fyrsta leikhluta (16:30)) en misstu forskotið niður í tvö stig í hálfleik (39:41).

Seinni hálfleikur var í járnum þar sem bæði liði skiptust á að taka forystuna. Höttur náði mest fjögurra stiga forystu í fjórða leikhluta (80:76) en Njarðvíkingar reyndust sterkari á endasprettinum og höfðu betur í hörkuspennandi leik þar sem Dedrick Deon Basile fór fyrir liðinum með góðum leik og skoraði 29 stig auk þess að taka sjö fráköst og eiga níu stoðsendingar.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 29/7 fráköst/9 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 18, Oddur Rúnar Kristjánsson 14, Lisandro Rasio 11/7 fráköst, Mario Matasovic 10/6 fráköst/3 varin skot, Haukur Helgi Pálsson 7/6 fráköst, Logi Gunnarsson 2, Jan Baginski 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Elías Bjarki Pálsson 0.