Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurnýlenda á Flórídaskaga
Mánudagur 5. ágúst 2013 kl. 09:39

Keflavíkurnýlenda á Flórídaskaga

Þrír fótboltamenn úr Reykjanesbæ fá háskólastyrk í Bandaríkjunum

Það hefur færst í aukana að ungir knattspyrnumenn á Íslandi sæki í nám í Bandaríkjunum þar sem möguleiki er fyrir hendi að stunda háskólanám samhliða knattspyrnu á skólastyrk. Þrír félagar frá Keflavík halda senn á vit ævintýranna til Flórída þar sem þeir hyggjast setjast á skólabekk í borginni Daytona í Flórídafylki Bandaríkjanna. Sigurbergur Elisson, Magnús Þór Magnússon, leikmenn Keflvíkinga, og Viktor Smári Hafsteinsson, leikmaður Njarðvíkinga, halda út í hinn stóra heim á næstu dögum. Þeir segja að vissu leyti erfitt að kveðja heimahagana en þó eru þeir fullir tilhlökkunnar að hefja nám í skólanum sem nefnist Embry-Riddle.

Sigurbergur segir að það hafi verið draumur hjá sér lengi að komast í skóla í Bandaríkjunum. Hann hafði samband við nokkra skóla sem virtust áhugasamir um að fá hann til liðs við sig. Það er í raun ár síðan að hann var búinn að gera upp hug sinn, en þeir Viktor og Magnús fylgdu í kjölfarið fyrir skömmu síðan eftir að dyrnar opnuðust fyrir þá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lífið framundan í Flórída mun ekki eingöngu snúast um fótbolta og strandferðir. Það verður að standa sig í náminu. Allir luku þeir námi frá FS fyrir skömmu og þeir hlakka til þess að takast á við háskólanám. Jafnvel þó það sé í öðru landi, á annarri tungu. Bæði Viktor og Sigurbergur ætla að leggja sálfræðina fyrir sig en Magnús ætlar í hugbúnaðarverkfræði. Nú stefnir allt í það að þeir muni deila íbúð í Bandaríkjunum og þeir segja það fróðlegt að sjá hvernig sambúðin muni ganga. „Við verðum með Sibba í ól, þá verður þetta í lagi,“ segir Viktor en Sigurbergur viðurkennir það sjálfur að hann sé svolítill sóði. „Ég held að Maggi verði pabbinn á þessu heimili okkar,“ bætir Sigurbergur við.

Eru ekki að flýja sökkvandi skip

Samkvæmt því sem strákarnir hafa heyrt þá er fótboltinn af svipuðum gæðum og topplið í fyrstu deild, eða botnlið í efstu deild búa yfir hér á Íslandi. Þá berst talið að liði Keflvíkinga sem nú háir mikla botnbaráttu í Pepsi deildinni.
„Það er erfitt að kveðja Keflvíkinga núna í þessari stöðu. Það hittir ekkert skemmtilega á,“ segir Sigurbergur. Hann segist þó líta á þetta sem einstakt tækifæri til þess að mennta sig og spila fótbolta í leiðinni. „Það er vissulega erfitt að fara. Við höfum alveg fengið nokkur skot á okkur,“ segir Magnús en bæði hafa aðrir leikmenn og eins stuðningsmenn látið þá aðeins heyra það. Það er þó mest í gríni sagt. „Einhverjir hafa sagt að við séum að flýja sökkvandi skip. Við erum alls ekki að gera það, maður þarf bara að huga að framtíðinni og sjálfum sér,“ segir Sigurbergur og Viktor bætir því við að það sé nú líf eftir fótboltann.

Viktor viðurkennir að hann sé stundum þreyttur á sömu gömlu rútínunni og hann hlakkar til þess að prófa eitthvað nýtt og upplifa nýja hluti. Viktor sem er uppalinn Keflvíkingur söðlaði um og gekk til liðs við Njarðvíkinga fyrir þetta tímabil í 2. deildinni. Hann segir gengið ekki hafa verið samkvæmt vonum en þó kann hann mjög vel við sig í grænu. „Þeir verða kannski ekki ánægðir með mig ef ég segi þetta, en þetta er svolítið eins og gamli 2. flokkurinn hjá Keflavík. Mér líst mjög vel á þetta samstarf félaganna og mun þetta tvímælalaust hjálpa báðum liðum.“

Ákvörðunin erfiðari eftir að Magnús komst í liðið

Magnús Þór sat lengi framan af sumri á bekk Keflvíkinga. Þegar Zoran Ljubicic þjálfari var látinn fara og Kristján Guðmundsson tók við, fékk Magnús tækifæri til þess að sanna sig. Hann segist nánast hafa verið búinn að taka ákvörðun um að halda vestanhafs en sú ákvörðun hafi verið erfiðari eftir að Kristján kom og með honum auknar mínútur á vellinum. „Eftir að ég fékk að spila nokkra leiki þá var erfiðara að fara frá þessu, en það er bara eins og það er,“ segir Magnús sem leikur ýmist sem miðju- eða varnarmaður.

Strákarnir hafa fulla trú á því að Keflvíkingar haldi sér uppi og vona það innilega.
Heyra má á strákunum að þeir séu spenntir en Bandaríkin hafa upp á mikið að bjóða. Allir eru þeir miklir aðdáendur körfubolta og segjast spenntir fyrir því að skella sér á leik í NBA deildinni og fylgjast með háskólaboltanum sem nýtur sífellt meiri vinsælda hérlendis.

Tímabilið fer að hefjast í Bandaríkjunum og því hafa Sigurbergur og Magnús nú þegar leikið sinn síðasta leik fyrir Keflvíkinga í bili. Viktor spilar einn leik með Njarðvík og heldur svo á vit ævintýranna. Vinir og fjölskylda eru skilningsrík og sumir vinanna hafa þegar pantað gistingu hjá strákunum. „Það virðast allir vera á leið til Flórída núna eftir að tímabilinu lýkur hérna heima,“ segir Viktor og hlær. „Þetta verður mjög krefjandi og mikil vinna, við gerum okkur grein fyrir því,“ segir Magnús. Það verður fróðlegt að fylgjast með gengi þeirra félaga í háskólaboltanum í Keflavíkur-nýlendunni í Embry-Riddle skólanum, en þar eru fyrir Keflvíkingarnir Rebekka Gísladóttir og Viktor Guðnason.