Samkaup
Samkaup

Íþróttir

Knattspyrnudeild UMFG í lausu lofti varðandi aðstöðu fyrir meistaraflokk karla í vetur
Stjórn knattspyrnudeildar UMFG, frá vinstri; Ingi Steinn Ingvarsson, Tómas Þór Eiríksson, Brynjar Ragnarsson, Haukur Einarsson og Sigurður Óli Þórleifsson.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 1. nóvember 2024 kl. 07:00

Knattspyrnudeild UMFG í lausu lofti varðandi aðstöðu fyrir meistaraflokk karla í vetur

„Við ætlum okkur að berjast til síðasta blóðdropa,“ segir Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG í Grindavík en segja má að nokkuð söguleg stund hafi verið fimmtudaginn 24. október. Þá hélt stjórn knattspyrnudeildarinnar fyrsta fundinn í Gula húsinu, félagsheimili deildarinnar við knattspyrnuvöll Grindvíkinga.

Róðurinn hefur verið erfiður en mikil ánægja ríkir með nýtilkomið samstarf við knattspyrnudeild Njarðvíkur varðandi meistaraflokk kvenna, liðin voru sameinuð á dögunum og þar með eru grindvískar knattspyrnukonur með öruggt skjól og æfingaaðstöðu í Nettóhöllinni í Reykjanesbæ með njarðvískum liðsfélögum sínum. Staða karla-liðsins er snúnari.

Á þennan fyrsta stjórnarfund í Gula húsinu voru fimm af sjö stjórnarmönnum mættir, fyrir utan Hauk þeir Sigurður Óli Þórleifsson, Ingi Steinn Ingvarsson, Tómas Þór Eiríksson og Brynjar Ragnarsson. Ólafur Már Sigurðsson og Jón Júlíus Karlsson voru fjarverandi.

Haukur segir að sumarið hafi verið erfitt en ekkert annað sé í spilunum en halda skipinu á floti, uppgjöf sé ekki í boði.

„Sumarið var erfitt, því er ekki hægt að neita. Það var ekki mikil mæting á leiki liðanna okkar og áhuginn virtist ekki vera mikill. Ég vil koma á framfæri kærum þökkum til Víkinga sem gripu okkur í þessu veseni okkar og leyfðu okkur að spila í Safamýrinni og síðasta vetur fengum við frábæran stuðning frá Stjörnunni, Fylki, Álftanesi og Sporthúsinu, ég verð hálf klökkur þegar ég hugsa til velvildar þessara félaga og í raun allra í garð okkar Grindvíkinga. Ég tel góðan árangur liðanna okkar að hafa haldið sæti sínu í deildunum og nú er bara að halda áfram. Við erum himinlifandi yfir samstarfinu við nágranna okkar í Njarðvík og starfið í kringum kvennaknattspyrnuna er komið á fullt, það lítur mjög vel út. Gylfi Tryggvason var ráðinn þjálfari en hann var aðstoðarþjálfari kvennaliðs HK auk þess að þjálfa yngri flokka hjá félaginu. Hann hefur líka þjálfað yngri flokka hjá Fylki Stjörnunni og Árbæ.

Njarðvíkingarnir voru það flottir að semja við okkur þannig að þegar við getum snúið til baka til Grindavíkur munu Njarðvíkurstelpurnar færa sig niður um deild og þau buðust líka til að liðið heiti Grindavík/Njarðvík en ekki öfugt. Í karlaboltanum er þetta flóknara, þar þarf liðið sem heldur ekki velli í viðkomandi deild, að flytjast niður í neðstu deild. Engin lið eru að fara semja við okkur á þeim forsendum að þau þurfi að flytjast á byrjunarreit enda myndum við ekki fara fram á það. Þess vegna var aldrei inni í myndinni að sameinast öðru liði, við ætlum að berjast fyrir samfélagið okkar en við teljum mjög mikilvægt fyrir grindvískt samfélag að íþróttaliðunum okkar gangi vel. Upplegg okkar á síðasta tímabili var að vera með sem flesta Íslendinga, með fullri virðingu fyrir útlendingum en það bara gekk ekki upp. Þess vegna var liðið mikið til mannað með útlendingum og þá vill það oft gerast að tenging bæjarbúa við liðið rofni og sú varð raunin í sumar, það var ekki mikill áhugi á fótboltaliðinu og því ætlum við að breyta. Það er gífurlegur efniviður á leiðinni upp hjá okkur og ég efast um að 25 leikmenn hafi nokkurn tíma verið í öðrum flokki hjá Grindavík á sama tíma. Þarna eru strákar sem urðu Íslandsmeistarar í 5. flokki fyrir nokkrum árum og meðal þeirra eru strákar sem komnir eru í unglingalandslið. Við munum styrkja liðið en oft er talað um hina svokölluðu hryggjarsúlu fótboltaliðs, að hún sé sterkbyggð með reyndum leikmönnum í stöðum sem ganga upp miðjan völlinn, markmaður, hafsent, miðjumaður og sóknarmaður. Við munum vanda valið og ég er strax farinn að hlakka til næsta tímabils og fylgjast með okkar efnilegu leikmönnum. Við vorum mjög ánægðir með Harald Árna Hróðmarsson sem tók við meistaraflokknum þegar skammt var liðið á mótið. Marko Valdimar Jankovic verður honum til aðstoðar á komandi tímabili, við treystum þeim og Alexander Veigari Þórarinssyni sem mun þjálfa annan flokkinn, til að leiða þessa ungu og efnilegu Grindvíkinga, ásamt nokkrum reyndum eldri leikmönnum.“

Hver á að borga?

Draumur grindvísks knattspyrnufólks og forkólfa er að geta snúið aftur til Grindavíkur sem fyrst en allir gera sér grein fyrir að það verði ekki á næstunni. Knattspyrnudeildin óskaði eftir leyfi Almannavarna til að fá að taka eina æfingu í Grindavík á síðasta tímabili og jafnvel að spila einn heimaleik en það leyfi fékkst ekki. Það verður ekki einföld ákvörðun að taka ákvörðun um að spila heimaleiki þótt leyfi fáist, hver er að fara sjá um völlinn, búningsaðstöðuna og þau fjölmörgu atriði sem snúa að rekstri knattspyrnuliða? Hugsunarháttur forkólfanna snýst ekki um að snúa til Grindavíkur næsta sumar, það er óraunhæft á þessum tímapunkti. Meistaraflokkur karla hefur fengið inni í Skessunni, knattspyrnuhúsi FH, en ekki er komið á hreint hver borgar brúsann og þar sem allt er í uppnámi í íslensku stjórnarfari í kjölfar stjórnarslita eru mál knattspyrnudeildar UMFG í lausu lofti.

„Sem betur fer leystust mál körfuknattleiksdeildar UMFG og þau fengu inni í Smáranum, við töldum okkur vera langt komna með sambærilegan stuðning vegna æfinga okkar í vetur hjá FH-ingum en það á eftir að ganga frá þeim samningum. Við erum því aðeins í lausu lofti og vonumst til að geta klárað þessi mál sem fyrst. Það er nógu erfitt fyrir okkur að snúast í kringum allt en þurfa ekki líka að hafa áhyggjur af svona stóru máli. Hvar við spilum heimaleikina okkar á næsta tímabili er ekki komið á hreint, við erum ekki með neina drauma nema bara Grindavíkina okkar en hvort það verði næsta sumar er ekki í okkar höndum. Eins og staðan er núna finnst okkur Kaplakriki líklegur heimavöllur okkar en það á alveg eftir að ganga frá því en FH-ingar eiga heiður skilinn fyrir hversu vel þeir hafa tekið okkur. Það hefur verið skotið að okkur að flytja okkur á Suðurnesin en það er held ég ekki pláss fyrir okkur þar og hver veit, kannski þurfum við að flakka á milli valla til að spila heimaleikina okkar. Þetta er einfaldlega flókin staða en það er engan bilbug á okkur að finna, við ætlum að berjast til síðasta blóðdropa fyrir knattspyrnuna í Grindavík, það er of mikið í húfi til að gefast upp. Það verður gott þegar okkar aðstöðumál leysast og biðlum við í raun til þeirra sem hafa með málið að segja, að hjálpa okkur. Eins og ég nefndi áðan, það er nógu erfitt að standa í þessu svo við bætum ekki eins stóru máli og aðstöðumáli inn í þá jöfnu. Við ætlum samt að vera bjartsýn og við hlökkum mikið til næsta sumars,“ sagði Haukur að lokum.