Íþróttir

Kvennaslagur í tippinu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 3. nóvember 2023 kl. 06:05

Kvennaslagur í tippinu

Eva Rut Vilhjálmsdóttir gerði sér lítið fyrir og velti Jónasi Þórhallssyni af stalli í tippleiknum um síðustu helgi, æsispennandi leikur sem endaði 9-8 fyrir Evu. Jónas náði að vera á pallinum í þrjú skipti og er því á toppnum í heildarleiknum með 26 rétta. Til upprifjunar, fjórir efstu munu mætast í undanúrslitum þegar tvær umferðir verða eftir af enska boltanum.

Þar sem verkfallsdagur kvenna var í síðustu viku, er við hæfi að láta tvær konur mætast að þessu sinni og úr varð að formaður Þróttar í Vogum, Petra Ruth Rúnarsdóttir, er næsti áskorandi.

Petra sem þekkt keppnismanneskja, er ekki mætt í leikinn bara til að vera með. „Ég hef verið að tippa undanfarin ár og fyrir þetta tímabil tókum við þrjár að okkur að sjá um þetta fyrir Þrótt, ég, Elísabet Kvaran og Linda Ösp Sigurjónsdóttir. Það var Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar sem startaði þessu fyrir mörgum árum og það hefur alltaf verið virkt starf í kringum tippið í Vogum. Við erum með liðakeppni, það eru 22 lið sem keppa og gaman frá því að segja að kynjaskiptingin er nánast 50/50. Þessi keppni er þannig að allir í hverju liði tippa með sex tvítryggingum. Við látum hvert tímabil vera í níu vikur og erum með lokahóf 25. nóvember en ég náði einmitt að vinna þessa keppni síðasta vor. Það er gaman hjá okkur á laugardögum, þá mæta tipparar í íþróttahúsið, fá sér kaffi og heimabakað og fyrst ég er í tippleik Víkurfrétta í þessari viku lofa ég að baka extra mikið fyrir laugardaginn og hvet alla Vogabúa og fleiri til að kíkja á okkur, fá sér kaffi og með því, hitta annað fólk og prófa að tippa. Annars verð ég að viðurkenna, ég er ekkert límd yfir sjónvarpsskjánum á laugardögum þegar leikirnir eru, ég verð mjög vör við þegar Arsenal er að keppa því maðurinn minn heldur með þeim en sjálf er ég United-manneskja,“ sagði Petra.

Eva var hæstánægð með sigurinn á móti Jónasi og er ánægð með að mæta annarri konu. „Ég tippaði mikið hér fyrir nokkrum árum en var hætt en finn að áhuginn er algerlega kominn til baka. Ég fylgdist mjög spennt með á laugardaginn og fyndið, ég taldi fyrst vitlaust og síðasti leikurinn var á milli Wolves og Newcastle, ég taldi mig þurfa fá Newcastle sigur en sonur minn heldur með Wolves. Sá leikur endaði með jafntefli og ég því ekki með hann réttan svo ég fór að telja rétta leiki með einu merki en svo sá ég að ég hafði talið vitlaust. Var mjög ánægð þegar ég sá að ég hafði unnið Jónas. Ég þekki Petru og var einmitt að hugsa að gaman yrði ef Víkurfréttir myndi hafa tvær konur fyrst kvennafrídagurinn var í síðustu viku. Ég er komin með þvílíkan áhuga á tippinu aftur og ætla mér að reyna endurvekja tippkaffið á laugardögum í Víðishúsinu eins og var hér einu sinni,“ sagði Eva.