Íþróttir

Leiddu með þremur mörkum í hálfleik en töpuðu
Föstudagur 16. ágúst 2024 kl. 15:39

Leiddu með þremur mörkum í hálfleik en töpuðu

Eftir að Keflavík hafði leitt með þriggja marka forystu í hálfleik í leik þeirra gegn FH í Bestu deild kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu á HS orku-vellinum í Keflavík í gærkvöldi, þá hrundi leikur liðsins eins og spilaborg.

Fyrri hálfleikur hjá Keflavíkurkonum í gærkvöldi var örugglega sá besti hjá liðinu í sumar og það var markaregn. Ariela Lewis skoraði tvívegis, fyrst á 7. mínútu og svo aftur á þeirri 30. Saorla Lorraine Miller kom inn á milli með eitt mark á þeirri 28.

Það var hugur í Keflvíkingum í hálfleik og gleði með árangurinn. Gantast með það að það mætti bara blása leikinn af, þetta væri komið. Það var aldeilis ekki, því það var engu líkara en að Keflavíkurliðið hafi ekki mætt til leiks í síðari hálfleik.

Gestirnir úr FH skoruðu á 55., 70., 76. og 89. mínútu og glæsilegur 3-0 árangur heimakvenna úr fyrri hálfleik var minningin ein. Þær Snædís María Jörundsdóttir, Hildur Katrín Snorradóttir, Elísa Lana Sigurjónsdóttir og Breukelen Lachelle Woodard skoruðu mörk þeirra hafnfirsku.

Keflavíkurkonur virkuðu fljótt þreyttar í síðari hálfleik og sýndu alls ekki þann leik sem boðið var uppá á fyrstu 45 mínútum leiksins. Á hliðarlínunni var það gagnrýnt að þjálfarateymið væri að gera skiptingar of seint. Það hefði mögulega bætt stöðuna að setja ferska fætur inn á völlinn fyrr í síðari hálfleik.

Keflavík er á botninum í Bestu deild kvenna með 9 stig eins og Fylkir, sem er sæti ofar. Þá er Tindastóll með 12 stig í þriðja neðsta sæti. Þaðan eru svo átta stig upp í 7. sætið og því ljóst að róðurinn er erfiður fyrir Keflavík í deildinni í sumar.



Myndasafn neðar á síðunnu.

Keflavík - FH (3:4) | Besta deild kvenna 15. ágúst 2024