Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Íþróttir

Ólafur Helgi að semja við Þórsara
Miðvikudagur 18. maí 2016 kl. 13:08

Ólafur Helgi að semja við Þórsara

„Ég hef svo sem ekki verið sáttur við mitt hlutskipti“

Allar líkur eru á því að Njarðvíkingurinn Ólafur Helgi Jónsson muni semja við Þór í Þorlákshöfn í Domino's deildinni í körfubolta á næstu dögum.

 „Ég stefni að því já. Það mun væntanlega gerast á næstunni. Fyrir sjálfan mig þá tel ég þetta nauðsynlegt,“ sagði Ólafur í samtali við Víkurfréttir nú í hádeginu. Ólafur hefur hugsað málið allt frá því að úrslitakeppni lauk og ráðfært sig við ýmsa aðila. Guðmundur bróðir hans lék með Þórs liðinu á sínum tíma og líkaði vel. „Þetta er engin skyndiákvörðun,“ segir framherjinn. Þar hittir hann fyrir Njarðvíkingana Einar Árna Jóhannsson þjálfara og Maciek Baginski félaga sinn. Ólafur viðurkennir að það skemmi ekki fyrir að þeir séu þarna fyrir en það sé ekki ástæðan fyrir þessum vistaskiptum.

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Aðspurður um það hvort hann sé ósáttur við hlutskipti sitt hjá Njarðvík segir Ólafur. „Það er allavegana einhver ástæða fyrir því að ég fer. Mér fannst ég bara þurfa breytingu. Ég hef svo sem ekki verið sáttur við mitt hlutskipti. Ég kannski tel líka að ég þurfi að fara eitthvert annað til þess að verða betri leikmaður. Kannski hef ég náð mínu „potential“ hjá Njarðvík,“ segir Ólafur að lokum en hann býst við því að ganga frá sínum málum mjög fljótlega.