Sá stærsti í IceMar-höllinni til þessa – Njarðvík tekur á móti Keflavík í kvöld
Mikillar eftirvæntingar gætir fyrir aðalleik kvöldsins í Bónusdeild karla í körfuknattleik en Njarðvíkingar taka þá á móti grönnum sínum úr Keflavík. Leikurinn hefst klukkan 20:15 í IceMar-höllinni.
Báðum liðum hefur gengið ágætlega í vetur, Njarðvíkingar eru í þriðja sæti með átta sigra og fimm töp en Keflavík í því fimmta með sjö sigra og sex töp.
Keflvíkingar eiga harma að hefna en þegar þessi lið áttust við fyrr á tímabilinu unnu Njarðvíkingar með einu stigi (88:89) eftir að Keflavík hafði nánast leitt allan leikinn, um miðjan fjórða leikhluta seig Njarðvík fram úr og tryggði sér sigurinn.
Stemmningin á pöllum Blue-hallarinnar var mögnuð í fyrri viðureigninni og verður spennandi að sjá hvort sett verði aðsóknarmet í IceMar-höllinni í kvöld.