Íþróttir

Stýrir einni öflugustu knatt­spyrnuaka­demíu Noregs
Myndir/Fótbolti.net
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 13. janúar 2024 kl. 06:01

Stýrir einni öflugustu knatt­spyrnuaka­demíu Noregs

Ólafur Örn var liðsfélagi Zlatan Ibrahimovic í Svíþjóð

Grindvíkingurinn Ólafur Örn Bjarnason er einna þekktastur fyrir knattspyrnuiðkun sína, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann lék lengstum með Grindavík en auk þess lék hann sem atvinnumaður í Svíþjóð og í Noregi þar sem hann hefur búið undanfarin tíu ár. Í upphafi var Ólafur að þjálfa en réði sig svo í vinnu hjá norska knattspyrnusambandinu, fyrst við menntun þjálfara, svo hæfileikamótun ungra knattspyrnumanna en tók svo við nýju starfi sem yfirmaður knattspyrnuakademíu Stabæk í Osló, sem er stór á norskan mælikvarða.
Noregsmeistarar: Ármann Smári Björnsson, Kristján Örn Sigurðsson og Óli.

Óli er ánægður í nýja starfinu, er með samning út næsta tímabil en í hverju er starfið fólgið?

„Ég er yfir akademíunni sem telur varalið Stabæk, junior-liðið, sem er eins og annar flokkur, svo sautján ára, fimmtán ára, fjórtán ára, þrettán ára, tólf og ellefu ára liðið. Ég er með yfirumsjón með allri þjálfun, er yfir því að finna efnilegustu leikmennina og fá þá í þessi lið og fylgja þeim eftir. Við erum með fjóra til fimm leikmenn í flestum yngri landsliðum Noregs svo unglingastarfið er mjög öflugt hér og mjög góðir og færir þjálfarar. Ég vinn náið með þeim og þarf líka oft að ferðast til annarra félaga og hitta kollega, bæði hér í Noregi og í öðrum löndum. Þjálfarinn blundar alveg í mér en það þyrfti að vera mjög spennandi verkefni sem byðist svo ég myndi vilja hætta því sem ég er að gera í dag. Starfið er mjög fjölbreytt, ég er bæði úti á grasinu en líka að skoða leikmenn með viðkomandi þjálfara, ég vinn líka náið með aðalliðinu svo starfið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Pressan í þessu starfi er líka annars eðlis en að vera þjálfari aðalliðs. Þar er pressan kannski sú að vinna titla eða enda sem hæst, pressan í mínu starfi kemur í raun mest frá foreldrum, maður þarf oft að finna jafnvægi þar en þetta á vel við mig. Akademíurnar hjá stóru klúbbunum eru alltaf að stækka, mér finnst þetta spennandi starfsvettvangur og get hugsað mér að vera í þessu í langan tíma. Ég er ekki að leita eftir einhverju öðru í augnablikinu en auðvitað heillar England og Danmörk, Svíþjóð og Bandaríkin eru líka spennandi kostur en við erum sátt hér í Noregi í bili. Fótboltinn er samt eins og fótboltinn er, maður getur verið farinn eitthvert annað á næsta ári en ég er með samning út næsta ár og veit ekkert á þessari stundu hvað tekur við. Við erum mjög sátt hér í Osló, Kolla [Kolbrún Sævarsdóttir, eiginkona Óla] er í góðri vinnu en hún menntaði sig til hjúkrunarfræðings á meðan heimsfaraldur geisaði og er að vinna á bráðamóttöku fyrir fólk sem glímir við andleg veikindi. Bjarni sonur okkar býr með sinni kærustu í Bergen og er mjög sáttur þar, Valgerður systir mín býr sömuleiðis í Osló svo eins og sakir standa erum við mjög sátt hér í Noregi. Hvað framtíðin ber í skauti sér, kemur bara í ljós.“

Óli sem þjálfari Egersund.

Hjá norska knattspyrnusambandinu í fjögur ár

Áður en Óli réði sig í núverandi starf hjá Stabæk, vann hann fyrir norska knattspyrnusambandið í fjögur ár, frá 2018 til 2022. „Þegar ég var búinn að þjálfa í Noregi í fimm ár, frá 2013 til 2017, bauðst mér starf fyrir norska knattspyrnusambandið og við fluttum til Kristian-sand sem er í Suður-Noregi. Ég var yfir allri þjálfaramenntun í Suður-Noregi, allt frá grasrótarnámskeiðum, UEFA B yfir í UEFA-B youth þjálfararéttindi svo mitt starf fólst í því að heimsækja liðin í Suður-Noregi og hjálpa þeim að mennta þjálfarana þeirra. Undir það síðasta var ég farinn að fylgja eftir efnilegustu leikmönnunum á svæðinu og upp frá því bauðst mér svo starfið hjá Stabæk. Það var gott að fara í þetta starf á sínum tíma en þar áður hafði ég þjálfað tvö lið í annarri deildinni, var fyrst þrjú ár hjá Fyllingsdalen í Bergen sem er tiltölulega stór grasrótarklúbbur í Noregi, tók svo tvö ár hjá Egersund rétt hjá Stavanger. Það er klúbbur sem hefur alltaf verið með mikinn metnað, þeir voru einmitt að komast upp í fyrstu deild eftir tímabilið sem var að klárast. Ég náði fínum árangri með liðið en fann eftir seinna árið, en þá hafði ég verið að þjálfa meistaraflokk meira og minna í tíu ár, að ég vildi breyta til,“ segir Óli.

Bikarmeistari í Noregi, Ólafur í viðtali við sinn gamla kennara úr Grunnskólanum í Grindavík, Guðna Ölversson.

Var liðsfélagi Zlatan

Ólafur ólst upp í Grindavík, lék þar upp alla yngri flokka og átti stóran þátt í velgengni liðsins upp úr aldamótum þegar liðið komst m.a. í Evrópukeppni.

„Ég fór í gegnum alla yngri flokkana með Grindavík og fékk minn fyrsta meistaraflokksleik skráðan árið 1992 þegar Bjarni Jóhannsson var að þjálfa okkur í annarri deildinni, kom þá inn á í einum leik. Ég var aðeins að glíma við meiðsli næstu árin svo það var ekki fyrr en 1995 sem ég fór eitthvað að spila með meistaraflokki og var svo kominn í lykilhlutverk árið 1996 þegar Guðmundur Torfason tók við liðinu. Um svipað leyti var ég valinn í U21 árs landslið Íslands og fékk svo tækifæri á atvinnumennsku í Svíþjóð, gerði samning við Malmö fyrir ‘98 tímabilið og lék með þeim í tvö ár. Eftirminnilegast frá þeim tíma er klárlega að hafa verið liðsfélagi Zlatan Ibrahimovic, fyrst med varaliðinu og ég mætti honum líka í A-landsleik og skipti á treyjum við hann en ég lék alls fjóra U21 landsleiki og komst svo í A-landsliðið árið 1998, lék alls 27 A-landsleiki, þann síðasta árið 2008. Ég náði að festa mig ágætlega í sessi hjá Malmö og átti tvö góð ár með þeim en sneri þá aftur til Grindavíkur fyrir tímabilið 2000. Okkur gekk mjög vel og enduðum í þriðja sæti sem gaf sæti í Intertoto Evrópukeppninni. Við enduðum svo í fjórða sæti 2001 og aftur í því þriðja 2002 sem þá gaf sæti í Evrópukeppni. Tímabilið 2003 var síðan mjög eftirminnilegt, liðið var styrkt mjög mikið, m.a. með Ólafi Gottskálkssyni, markmanni, og hinum eina sanna Lee Sharpe en gengið var frekar brösótt. Bæði nafni minn og Sharpe hættu fljótlega og við enduðum í sjötta sæti en komumst grátlega nærri því að komast áfram í Evrópukeppninni, töpuðum 2-1 úti á móti Helga Kolviðs og félögum í Kärnten frá Austurríki. Við vorum 1-0 yfir þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma, sem hefði tryggt okkur áfram og við hefðum dregist á móti stórliði Feyenoord frá Hollandi, en fengum mark á okkur í uppbótartíma og duttum því út, vorum grátlega nærri því að komast áfram! Eftir þetta tímabil bauðst mér að kíkja á aðstæður hjá Brann í Noregi, fór yfir helgi og á sunnudeginum var samningur á borðinu og ég endaði á að spila með þeim í sjö ár. Okkur gekk mjög vel, urðum m.a. meistarar og bikarmeistarar og vorum alltaf í baráttunni. Á þessum tíma var skrokkurinn aðeins farinn að gefa eftir og ég fékk mig lausan um mitt tímabil 2010 og tók þá við þjálfun Grindavíkurliðsins. Ég spilaði líka en það átti ekki nógu vel við mig svo ég hætti þjálfun eftir 2011 tímabilið, einbeitti mér bara að því að spila og Guðjón Þórðarson tók við liðinu. Það gekk illa og við féllum og þá áttu skórnir að fara upp í hillu. Við Kolla vorum flutt í Reykjavík og ég var farinn að vinna hjá Lýsi. Svo hafði Fram samband og ég ákvað að slá til en ég spilaði nánast eingöngu, gat lítið æft og segja má að ég hafi endað ferilinn á toppnum, við urðum bikarmeistarar þetta ár og ég setti skóna endanlega upp í hillu eftir bikarúrslitaleikinn. Við Kolla vissum ekki alveg hvað við ætluðum okkur, fórum í frí til Bandaríkjanna en ég hafði kannað sambönd mín í Noregi og þegar við komum til baka úr fríinu, bauðst mér að gerast þjálfari í Noregi og hér er ég enn,“ sagði Ólafur Örn Bjarnason að lokum.

Ólafur með eiginkonu sinni, Kolbrúnu Sævarsdóttur.