Íþróttir

Sveiflukenndur leikur í Grindavík
Christabel Oduro skoraði tvö mörk gegn FH. VF-myndir: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 27. ágúst 2021 kl. 09:04

Sveiflukenndur leikur í Grindavík

Það var boðið upp á ótrúlegan leik í Grindavík í gær þegar FH-ingar komu í heimsókn í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Alls voru átta mörk skoruð og skiptust liðin á forystunni en á endanum lauk leiknum með jafntefli.

Það var markahrókurinn Christabel Odurio sem kom Grindvíkingum með marki á 15. mínútu þegar hún lék upp hægri kantinn og inn í teig FH þar sem hún skoraði úr erfiðu færi.

Á fyrstu mínútu uppbótatíma fyrri hálfleiks jöfnuðu FH-ingar eftir að hafa fengið aukaspyrnu á hættulegum stað, rétt utan teigs. Grindvíkingum tókst ekki að hreinsa frá og endaði boltinn í netinu.

Skömmu síðar fékk Grindavík aukaspyrnu út við hliðarlínu rétt innan vallarhelmings FH, fyrirgjöfin rataði inn á teiginn þar sem markaskorari FH skallaði boltann yfir eigin markmann og í markið (45'+2). Grindavík leiddi því með einu marki í hálfleik.

Liðin skiptust á að skora í vætunni á Grindavíkurvelli í gær.

FH jafnaði í upphafi seinni hálfleiks þegar fyrirgjöf þeirra frá hliðarlínu hafnaði í marki Grindvíkinga (48'), 2:2. FH-ingar sóttu á 64. mínútu og gáfu háa sendingu inn í teig Grindvíkinga, boltinn stefndi beint í fangið á Kelly Lyn O'Brien, markverði Grindavíkur sem skrikaði fótur á marklínunni og féll við og missti boltann klaufalega yfir sig í markinu.

Unnur Stefánsdóttir jafnaði fljótt leikinn fyrir Grindavík þegar þær fengu aukaspyrnu, sendingin fór inn í teiginn þar sem Unnur rak hann í netið (66') og staðann enn og aftur jöfn.

Fimm mínútum fyrir leikslok unnu Grindvíkingar boltann og sendu boltann fram á Oduro sem komst framhjá varnarmanni af harðfylgi og skoraði fjórða mark heimaliðsin, 4:3, en FH skoraði jöfnunarmark aðeins mínútu síðar og þar við sat. 4:4 lokatölur í ótrúlegum markaleik þar sem verður að segjast að markverðir beggja liða hittu ekki á sinn besta leik.

Það skapaðist oft hætta við mark beggja liða.

Grindavík fjarlægist fallsvæðið en þær eru nú í sjötta sæti og eiga tvo leiki eftir.