Þrumufleygur kom Þrótti í forystu
Þróttarar styrktu stöðu sína á toppi annarrar deildar karla í knattspyrnu í gær með góðum sigri á KF, Völsungur er fimm stigum á eftir Þrótti eftir stórsigur á Reyni Sandgerði og Njarðvíkingar hækkuðu sig um eitt sæti með fimm marka sigri á Fjarðabyggð.
Þrumufleygur Unnars braut ísinn
Það var hörkuleikur í Vogunum þegar topplið Þróttar tók á móti KF frá Fjallabyggð. Framan af var leikurinn í járnum en Þróttur náði yfirhöndinni á 25. mínútu þegar Unnar Ari Hansson átti magnað skot rétt utan teigs, sannkallaðan þrumufleyg sem markvörður KF átti ekki roð í.
Þróttarar voru með eins marks forystu í leikhléi og í síðari hálfleik tvöfölduðu þeir forystuna þegar Alexander Helgason skoraði ekki mikið síðra mark eftir góðan undirbúning Rubén Lozano Ibancos sem lék upp að endamörkum og sendi út í teiginn þar sem Alexander hamraði hann viðstöðulaust í netið.
Bæði lið áttu fín færi en Þróttur hafði ágætis vald á leiknum þar til á lokamínútunum þegar KF minnkaði muninn (90'). Við markið fengu gestirnir blóð á tennurnar og sóttu stíft þar til blásið var til leiksloka en vörn Þróttar var vandanum vaxin og tryggði að mörkin yrðu ekki fleiri
Þróttur lék án fyrirliðans Andy Pew og þá var Hermann Hreiðarsson ekki á hliðarlínunni en þeir voru báðir í leikbanni. Það virtist ekki trufla Þróttara mikið sem sýndu fína frammistöðu og stefna ótrautt á sæti í næstefstu deild að ári.
Einstefna í Njarðvík
Leikur Njarðvíkur og Fjarðabyggðar varð aldrei spennandi en Njarðvíkingar komust yfir á 15. mínútu með marki frá Bergþóri Inga Smárasyni. Ari Már Andrésson bætti öðru marki við sex mínútum síðar (21') og Aron Snær Ingason skoraði þriðja markið skömmu fyrir leikhlé (37').
Sigur heimamanna var aldrei í hættu og gestirnir virkuðu bugaðir í seinni hálfleik. Ekki bætti úr skák að Aron Snær skoraði annað mark sitt strax í upphafi síðari hálfleiks (47') og kom Njarðvík í fjögurra marka forystu. Arnar Helgi Magnússon skoraði fimmta og síðasta markið á 53. mínútu og þar við sat.
Njarðvíkingar færðust upp í fjórða sæti með sigrinum en þeir eru ekki nema fjórum stigum á eftir Völsungi sem er í öðru sæti deildarinnar. Ekki er öll von úti hjá Njarðvík um að fara upp en liðið hefur verið án þriggja leikmanna undanfarið. Markvörðurinn Robert Blakala, Zoran Plazonic og Conner Rennison, sem gekk til liðs við Njarðvíkinga fyrir skemmstu, veiktust allir af Covid en þeir eru á batavegi.
Birkir sá rautt og Reynismenn sáu ekki til sólar eftir það
Reynir lék gegn Völsungi á Húsavík en fyrri viðureign liðanna fór 5:1 fyrir Reyni. Það sama var ekki upp á teningnum í gær en Reynismenn urðu fyrir áfalli á 22. mínútu þegar Birkir Freyr Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið og Reynismenn því manni færri.
Heimamenn voru fljótir að nýta sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk í kjölfar brottreksturs Birkis (23' og 24'). Þeir bættu þriðja markinu við á 74. mínútu en Magnús Þórir Matthíasson minnkaði muninn fyrir Reynismenn þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka (79'). Völsungar gerðu út um leikinn á 87. mínútu þegar þeir bættu við fjórða og síðasta marki sínu.
Reynir situr í áttunda sæti deildarinnar og hefur að öllum líkindum tryggt sér áframhaldandi sæti í deildinni.
Lengjudeild karla:
Ekkert gengur hjá Grindavík
Á föstudag sóttu Grindvíkingar Selfoss heim og það voru heimamenn sem skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik (6' og 36').
Grindavík jafnaði leikinn í þeim síðari með tveimur mörkum frá Sigurði Bjarti Hallssyni, það fyrra kom á 70. mínútu úr víti og það leit út fyrir að Sigurður væri að tryggja þeim stig þegar hann bætti öðru marki við skömmu fyrir leikslok (88').
Einhver álög virðast hafa verið lögð á Grindvíkinga því þeir fengu mark á sig í uppbótartíma annan leikinn í röð og Grindavík hefur nú ekki unnið leik í níu umferðir, gert fimm jafntefli og tapað fjórum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fór á leiki Þróttar og Njarðvíkur og má sjá myndir úr leikjunum í myndasöfnunum hér fyrir neðan.