Tveir Suðurnesjasigrar í gær
Bæði Njarðvík og Keflavík unnu sína leiki í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær. Íslandsmeistarar Njarðvíkur lögðu nýliða ÍR frekar örugglega á meðan taplausir Keflvíkingar unnu Val í miklum spennuleik.
Valur - Keflavík 75:78
(22:18, 10:17, 24:15, 19:28)
Leikur Vals og Keflavíkur var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Valskonur fóru örlítið betur af stað og náðu mest sjö stiga forystu í fyrsta leikhluta (11:4), þær leiddu með sex stigum (32:26) um miðjan annan leikhluta en þá tóku Keflvíkingar við sér og sneru dæminu sér í vil á lokamínútum fyrri hálfleiks. Öflugur varnarleikur sló Valskonur út af laginu og Daniella Morillo setti niður þrjár körfur til að jafna leikinn og Anna Ingunn Svansdóttir setti niður mikilvægan þrist í lok leihlutans og Keflavík leiddi því með þremur stigum í hálfleik (32:35).
Seinni hálfleikur var í járnum og í þriðja leikhluta skiptust liðin á að ná forystu, Keflavík seig svo að lokum fram úr í þeim fjórða og hafði að lokum þriggja stiga sigur (75:78). Keflavík heldur sínu striki og er efst í deildinni, taplaust með fjóra sigra.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 28/6 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Karina Denislavova Konstantinova 20/6 fráköst/5 stoðsendingar, Anna Ingunn Svansdóttir 9, Katla Rún Garðarsdóttir 6, Agnes María Svansdóttir 6/4 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 5, Anna Lára Vignisdóttir 2, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Gígja Guðjónsdóttir 0, Ásthildur Eva H. Olsen 0, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0.
ÍR - Njarðvík 70:78
(17:13, 13:25, 17:21, 23:19)
Njarðvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með ÍR þegar liðin mættust í Breiðholti í gær. Heimakonur fóru betur af stað og leiddu eftir fysta leihluta en Ljónynjurnar settu í gírinn í öðrum hluta og höfðu átta stiga forystu í hálfleik (30:38). Í seinni hálfleik hélt Njarðvík þægilegu forskoti og hleypti ÍR aldrei nærri sér.
Aliyah Collier er í algerum sérklassa og heldur áfram að draga vagn Íslandsmeistaranna. Í gær var Collier með 29 stig, átján fráköst, sjö stoðsendingar og fjögur varin skot.
Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 29/18 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir/4 varin skot, Raquel De Lima Viegas Laniero 18/6 fráköst/6 stoðsendingar, Bríet Sif Hinriksdóttir 13, Erna Hákonardóttir 12, Kamilla Sól Viktorsdóttir 6, Andrea Dögg Einarsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 0, Dzana Crnac 0, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0.