Samkaup
Samkaup

Mannlíf

„Mér finnst  ágætt að vera  bara Heiða“
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
þriðjudaginn 30. júní 2020 kl. 09:26

„Mér finnst ágætt að vera bara Heiða“

Klappa fyrir framlínufólkinu á fimmtudögum.

Heiða Ingimarsdóttir er búsett í Leeds í Englandi ásamt unnusta sínum, Andy, og fjórum börnum sínum, þeim Kristjönu, Agli Frey, Aldey Rós og Kötlu Sól. Heiða er með mastersgráðu í fyrirtækjasamskiptum, markaðsfræði og almannatengslum. Enn ríkir mikil óvissa í Englandi varðandi heimsfaraldurinn en fjölskyldan lítur björtum augum á sumarið og nýtur þess að verja tímanum saman.

HÉR MÁ LESA VIÐTALIÐ Í VÍKURFRÉTTUM OG SJÁ FJÖLMARGAR LJÓSMYNDIR

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

Þegar ég var að klára Bachelor-nám frá háskólannum á Bifröst í miðlun og almannatengslum fann ég að mig langaði að læra meira og það á sviði almannatengsla. Almannatengsl eru ekki kennd á meistarastigi heima og því þurfti ég að leita út fyrir landsteinana. Föðurfjölskylda elstu dóttur minnar býr í Englandi og Andy er frá Englandi svo það lá beinast við að leita að námi hér. Háskólarnir hér eru líka mjög góðir. Þá er það einnig stór plús hversu stutt er á milli landanna og yfirleitt hægt að fá hagstæð flug. Sonur minn fer til dæmis reglulega til Íslands, enda býr pabbi hans þar. Ég sótti um í tvo skóla og komst inn í þá báða. Eftir að hafa legið yfir kostum og göllum hvers skóla fyrir sig, staðsetningu og fleiru varð háskólinn í Leeds fyrir valinu. Ég kláraði MA í fyrirtækjasamskiptum, markaðsfræði og almannatengslum haustið 2019.

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

Ég sakna helst fjölskyldu og vina. Við höfum þó verið alveg rosalega heppin með hvað ættingjar og vinir hafa verið dugleg að heimsækja okkur. Svo sakna ég íslenskra sumarnátta. Þetta er í annað skipti sem ég bý erlendis og það er alveg ótrúlegt að hinar björtu íslensku sumarnætur séu eitthvað sem ég finn að ég sakna alltaf. Það kom mér á óvart því ég tók ekkert sérstaklega eftir því hvað þær væru mér kærar á meðan ég bjó heima en þær fylla mig gleði og orku og þar af leiðandi langar mig alltaf að skjótast heim þegar ég sé myndir og myndbönd frá Íslandi á vorin og fram á sumar.

– Hve lengi hefurðu búið erlendis?

Við fluttum til Leeds í júní 2018 svo tvö ár. Við ákváðum að koma í eitt ár til þess að byrja með, á meðan ég væri að klára skólann, og sjá svo til. Við vildum hvorki negla það niður að við færum heim um leið og ég kláraði né að við yrðum hér að eilífu. Ég og unnusti minn erum bæði frekar mikil fiðrildi og myndum helst vilja prófa að búa í sem flestum löndum og heimshornum.

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

Undir venjulegum kringumstæðum þá er töluvert af atvinnutækifærum hér og mikið ódýrara að lifa. Við getum búið börnunum okkar betri lífskjör hér en heima. Andy fær líka vinnu hér sem hentar honum. Þegar við bjuggum á Íslandi var því miður hann settur í „útlendinga“ hóp og fékk eingöngu láglaunastörf í vaktavinnu. Við létum það ganga en það er ekki beint fjölskylduvænt. Hérna úti er hann í stjórnunarstöðu þar sem hann vinnur virka daga frá 8-5 og er búinn snemma á föstudögum. Það er algjör draumur. Að vissu leyti finnst mér líka gríðarlegur kostur að ég kemst áfram á eigin ágæti og er algjörlega metin út frá eigin gjörðum og persónu. Ég held að það gefið mér fleiri tækifæri heldur en ég hefði fengið heima. Mér finnst ágætt að vera bara Heiða. Ekki Heiða dóttir einhvers, fyrrverandi einhvers eða sem vann með einhverjum og svo framvegis. Við segjum líka oft að við þurfum hvorki að eiga stærsta húsið né flottasta bílinn en ef við eigum auka pening þá viljum við gjarnan ferðast. Það er töluvert ódýrara héðan en frá Íslandi. Við söknum samt frelsisins sem krakkarnir höfðu á Íslandi.

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

Fyrir kórónavírus var ég að klára fæðingarorlof og var því að leita mér að vinnu. Við vorum með yndislega aupair frá Íslandi sem heitir Þórsteina og hún hjálpaði okkur með krakkana. Rétt áður en veiran skall á var ég komin í ólaunað starfsnám á stafrænni markaðsstofu þar sem ég sá um ýmis konar texta skrif. Ég var þar frá svona 9 til 15 og rölti svo heim og átti smá stund með fjölskyldunni. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að hafa góðan mat og elska að hafa nægan tíma til að dúllast við að elda og hafa fjölskyldumeðlimi flögrandi í kringum mig. Rétt áður en veiran skall á var þó orðið frekar lítið úr þeirri gæðastund, þar sem ég kom heim og henti í mat og knúsaði krakkana aðeins áður en ég dreif mig aftur út til að þjóna á veitingastað í hverfinu. Eftir vinnu kom ég svo heim og átti eina til tvær klukkustundir með Andy og Þórsteinu áður en ljósin voru slökkt til að safna orku fyrir næsta dag. Ég sá fram á að þetta yrði svona þar til 8. maí en þá átti ég að byrja í launuðu starfsnámi í tvo mánuði á stofu sem sinnir ráðgjöf varðandi innri samskipti fyrirtækja.

Svo rétt áður en hér varð útgöngubann vorum við í tveggja vikna sóttkví. Hér er nefnilega svo lítið prófað. Reglan var einfaldlega sú að ef þú eða einhver sem býr með þér sýndi einhver einkenni þá fór allt heimilið í tveggja vikna sóttkví. Litlu stúlkurnar okkar voru með hósta og við hlýddum. Þegar fyrri vikan okkar var búin varð ljóst að margt myndi breytast í samfélaginu hér og þá fór Þórsteina aftur til Íslands. Um það leyti sem við áttum að „sleppa“ úr sóttkví skall á útgöngubann. Veitingastaðurinn sem ég vann á lokaði og markaðsstofan líka og Andy var sendur í leyfi. Hefðbundinn dagur hjá okkur þessa dagana hefst á því að stóru krakkarnir læra heima. Ég setti saman stundaskrá fyrir þau og þau eru búin að koma mér gríðarlega á óvart með hversu samviskusöm og dugleg þau eru. Þau setja „timer“ á og skipta á milli faga þegar þess þarf og kvarta ósköp sjaldan. Á meðan þau læra hefur Andy ofan af fyrir litlu stelpunum. Ég byrja á að gera heimaæfingar og síðan flögra ég um í eldhúsinu þar sem þau eldri læra. Ég er þá í kallfæri ef þau þurfa hjálp. Yfirleitt nýti ég tímann og undirbý hádegismat handa okkur öllum. Eftir hádegi tekur sú yngri blund, stóru krakkarnir fá klukkustund í frjálsan skjátíma og Aldey tekur hvíld þar sem við lesum og hlustum á hugleiðslutónlist. Við Andy dundum okkur jafnvel í Dulingo-appinu en við erum bæði að læra spænsku á því. Stóru krakkarnir hafa síðan ákveðið að taka þátt í tungumálanáminu og er annað þeirra að læra bæði þýsku og breskt táknmál og hitt er að læra frönsku. Þegar sú stysta vaknar drífum við okkur út í klukkutíma útivistina okkar. Við megum ekki keyra neitt í útivistinni og erum því að verða búin að þræða flestar götur hér í hverfinu. Þessi hreyfing er algjör nauðsyn þegar maður er með orkumikla krakka og hund á stærð við pónýhest. Við erum heppin og erum með frábæran garð en það er bara annað að fara út að ganga. Að göngutúr loknum fer ég að brasa við kvöldmatinn og fjölskyldan sest öll saman niður og borðar. Síðan eru börnin böðuð og þeim mokað hverju í sitt bæli (enda reyndar oft í hvors annars rúmi) og ég og Andy reynum að eiga kvöldin saman sem par, horfum á sjónvarpið, spjöllum eða spilum. Um helgar höfum við síðan reynt að brjóta upp hlutina með því að klæðast í búninga, hafa einhver þemu og láta bara pínu kjánalega. Maður verður að hafa gaman af lífinu. Við þurfum bara stundum að muna að anda og sumir dagar reyna meira á þolinmæðina en aðrir.

– Líturðu björtum augum til sumarsins? Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

Þar sem ég stefndi á að vera að byrja að vinna eftir að hafa lokið námi og fæðingarorlofi þá vorum við ekki með nein stór plön fyrir sumarið þannig lagað. Ætluðum að ferðast um í Yorkshire, sem er okkar sýsla, og gera frekar eitthvað stærra næsta sumar. Ég ætlaði reyndar með vinkonum mínum í mömmufrí til Búdapest þar sem við ætluðum að hlusta og horfa á Celine Dion. Ég elska sólina, hlýjuna og sumarið almennt svo ég lít sumarið frekar björtum augum. Það er samt svo mikil óvissa hér ennþá að það er erfitt  að gera sér grein fyrir því við hverju við megum búast. Eins og staðan er í dag er ennþá útgöngubann en við megum fara eins oft út á dag og við viljum og eins lengi og við viljum, sem er mikil breyting frá því í vor þegar við máttum fara út einu sinni á dag í klukkustund á dag. Þegar þessu verður létt enn frekar er verið að tala um að það verði sennilega bæði samgöngubann og fjarlægðatakmarkanir í að minnsta kosti ár, eða þar til bóluefni finnst. Við tökumst á við hlutina eins og þeir birtast okkur hverju sinni og reynum að leysa þau verkefni sem okkur verða fólgin á sem bestan hátt. Það erfiðasta fyrir stóru krakkana mína held ég að sé að geta ekki hitt feður sína. Pabbi Kristjönu býr í Zurich og pabbi hans Egils býr á Íslandi. Ég get ekki heldur ímyndað mér hvernig það er að vera í sporum pabba þeirra. Ég tel mig svo ríka að búa með krökkunum og fá að sjá þau flesta daga. Það hlýtur að vera alveg hrikalega erfitt að vita ekki hvenær þú færð að knúsa barnið þitt næst. En við minnum krakkana á að það kemur að því að þau fari til pabba sinna aftur og ég er dugleg við að hvetja þau til að hringja í feður sína og aðra ættingja. Við erum heppin að það er árið 2020 og við erum með alla þessa stórkostlegu tækni! Krakkarnir halda örugglega að ég hafi verið uppi á fornöld þegar ég útskýri fyrir þeim að ef þetta hefði gerst þegar ég var á þeirra aldri þá hefði maður þurft að skrifa bréf og síðan bíða í von og óvon á meðan það var flutt yfir hafið og vona síðan að sá sem maður skrifaðist á við nennti að senda manni bréf til baka.

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

Smáu áhugamálin, þessi  sem maður setur alltaf til hliðar og ætlar að sinna þegar maður hefur meiri tíma, hafa loksins fengið þennan umtalaða tíma. Ég opnaði heimasíðu þar sem ég er að æfa mig í skapandi skrifum. Ég hef gaman af því og finn hvað þetta gefur mér mikið. Undanfarin ár hefur allt sem ég hef skrifað verið náms- eða vinnutengt og þetta því eins konar hvíld og virkar eins og smá hugleiðsla. Ég hef líka talað um að læra eitthvað „af því bara“ þegar háskólanáminu lyki. Tungumál og gítar voru á stefnunni þegar ég kláraði masterinn en ég setti það svo á ís og ætlaði að gera þetta þegar ég hefði meiri tíma. Ég er ekki byrjuð að æfa á gítar en ég er að læra spænsku og hef gaman af. Áhugamál, eins og að ferðast erlendis og belgja mig út af dýrindis mat sem ég hvorki elda né geng frá eftir, eru eitthvað sem við vorum ekki að sjá fram á á næstunni hvort eð er, þannig að í sjálfu sér breyttist lítið í kringum þau.

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

Ég ætlaði að vinna og ná mér í reynslu í því sem ég hef verið að mennta mig í. Stóru krakkarnir áttu að vera að fara til pabba sinna um páskana og í sumar. Augljóslega fóru þau ekki neitt um páskana og ég efast um að þau fari nokkuð í sumar. Það er ekki skemmtilegt sumarfrí fyrir börn að húka tvær vikur hvoru megin í sóttkví. Eins og ég minnist á ofar þá var planið að fara í mömmufrí með vinkonunum til Búdapest. Ég ætlaði líka að reyna að skreppa til Íslands langa helgi snemma í sumar. Öllum slíkum plönum hefur verið frestað. Við höfum oft fengið gesti frá Íslandi en þeir eru ekki á leiðinni og ég veit ekki hvenær við megum búast við þeim. Ég sagði við vinkonu mína í dag að þegar fyrsti gesturinn kæmi að öllu þessu loknu þá myndi ég klárlega „ljótu grenja“.

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

Þetta eru skrítnir tímar hér eins og annars staðar. Tveimur dögum áður en ég fór í sóttkví með fjölskyldunni minni heyrði ég mann á veitingarstaðnum þar sem ég starfa segja að hann trúði ekki á veiruna. Við vitum líka um fólk sem er að mæta í partý og ekki mikið að spá í útgöngubanni. Það gerir mann graman því þetta er alvarlegt og ástandið er alls ekki gott í Englandi. Hér var brugðist of seint við og hér eru of margir sem einmitt virðast ekki taka þessu nógu alvarlega. Þegar útgöngubannið var sett á fannst manni samt tónninn breytast, hjá flestum allavega. Hér í hverfinu okkar finn ég mikla samkennd. Við förum út á fimmtudögum og klöppum fyrir þeim sem sinna svokölluðum lykilstörfum, heilbrigðisstarfsfólki, ræstingarfólki, lögreglunni, ruslahirðufólki og svo framvegis. Nágrannarnir skiptast á kveðjum og hvatningarorðum úr hæfilegri fjarlægð á göngutúrunum sínum. Ég held að flestar geymslur séu orðnar tómar og flestum verkum, sem setið hafa á hakanum heima við hjá fólki, sé að verða lokið, miðað við það sem maður sér á samfélagsmiðlum. Það er mikið um að fólk sé að hjálpa náunganum. Nágrannarnir hér eru í því að bjóðast til þess að fara í búðir fyrir þá sem eru veikir, eldri eða sinna fyrrnefndum lykilstörfum. Ein kona í götunni tók að sér að fara með fatapoka fyrir fólkið í götunni til góðgerðasamtaka. Í flestum gluggum má sjá regnboga sem heimilisfólk hefur föndrað og það er mjög gaman að sjá mismunandi útfærslu á regnbogunum en þeir eiga að dreifa gleði. Leigusalinn okkar skyldi eftir fullan poka af kökum og kort til þess að færa okkur gleði. Það eru allir að reyna og litlu hlutirnir hjálpa ótrúlega! Fólk er orðið þreytt á því að mega ekki fara neitt annað en um nánasta umhverfi og það væri mikil gæfa ef ríkisstjórnin létti aðeins á fyrirkomulaginu á útivistinni, eins og hún hefur talað um að gera. Þá þarf fólk ekki að velja á milli þess að fara út að hlaupa eða út að labba með fjölskyldunni og þá verður kannski hægt að keyra á önnur svæði til að ganga um. Á flestum heimilum er einn meðlimur tilnefndur til þess að fara í búð, hér er það Andy og við förum eins sjaldan og hægt er. Við ætluðum að panta matinn heim þegar útgöngubannið byrjaði en það var ekki laust út mánuðinn í heimsendingu svo við urðum að hverfa frá því. Þegar maður mætir fólki úti á götu þá ýmist færir fólk sig eins mikið á sitthvorn endann og hægt er eða jafnvel fer yfir götuna áður en það mætir manni. En mér finnst maður finna mikla samkennd og maður finnur þreytu og hræðslu. Foreldrar eru margir hverjir orðnir þreyttir á að vera innilokaðir með börnunum sínum og finnst erfitt að sjá um heimakennslu. Á sama tíma er fólk hrætt við að bönnum verði lyft of snemma og allt fari í sama far, eða jafnvel verr.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Að það er ekkert er sjálfsagt, bara alls ekki neitt. Ekki einu sinni að fara út í búð, á rúntinn, að hitta vini eða fara í klippingu, en það er hægt að gera gott úr flestu. Persónulega er ég gríðarlega þakklát. Fjölskyldan mín hér og heima er heilsuhraust. Börnin mín eru hjá mér og eru að tækla þetta ótrúlega vel. Við eigum ennþá fyrir mat og reikningum. Andy er með vinnu. Við erum með garð (það er sko langt frá því að vera sjálfsagt). Þegar þessu er svo öllu lokið þá held ég að við eigum að muna að njóta. Ekki geyma hlutina þar til seinna, hvort sem það eru áhugamál sem maður setur til hliðar eða að ferðast, því það er ekkert sjálfsagt. Ég held líka að sem samfélag höfum við lært að ansi margir ættu að geta mætt meiri sveigjanleika frá vinnuveitendum og vonandi helst það.