Samkaup
Samkaup

Mannlíf

„Viljum hugmyndir frá fólki að nýjum  atvinnutækifærum“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 4. maí 2020 kl. 12:43

„Viljum hugmyndir frá fólki að nýjum atvinnutækifærum“

Reykjanesbær hefur tekið í notkun samráðsvefinn BetriReykjanesbaer.is

Á dögunum opnaði Reykjanesbær nýjan samráðsvef, BetriReykjaensbær.is
sem hefur það markmiðið að auka þátttöku íbúa í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þróunar og þjónustu hjá Reykjanesbæ segir að vefurinn fari vel af stað, þrátt fyrir að hafa aðeins verið í loftinu í nokkra daga og formleg kynning á honum ekki hafin.

„Við erum búin að setja inn þrjá flokka þar sem við óskum eftir hugmyndum frá íbúum. Flokkarnir og verkefnin verða breytileg eftir tímabilum og hvað er í gangi hverju sinni. Núna höfum við mikinn áhuga á að fá hugmyndir frá fólki hvernig við getum skapað ný atvinnutækifæri og einnig hugmyndir hvernig við getum auðgað mannlífið í bænum. Þegar hugmynd er komin inn hefur fólk svo tækifæri til þess að segja sína skoðun á henni, og smella á „líka við“.

Allar hugmyndir og ábendingar fara í ákveðið ferli innan bæjarins. Einhverjar fara fyrir nefndir og ráð  eftir því hvers eðlis þær eru. Vefurinn er einfaldur í notkun og hægt að velja hvort komið er fram undir nafni eða ekki og ætti því að henta flestum.

„Ég hvet alla til að skoða vefinn og setja inn nýjar hugmyndir og ábendingar eða hafa skoðun á þeim sem þegar eru komnar inn og taka með því þátt í að byggja í sameiningu upp enn betri Reykjanesbæ“, sagði Jóna Hrefna.