Allir á svið í Frumleikhúsinu!
Leikfélag Keflavíkur frumsýnir á föstudaginn farsann Allir á svið, í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjóri sýningarinnar er Rúnar Guðbrandsson sem hefur áratuga reynslu í leiklist.
Farsinn Allir á svið er oft kallaður Drottning farsana enda er hér um að ræða sprenghlægilegt verk sem hefur slegið í gegn hvar sem það hefur verið sett upp. Sýningin fjallar um leikhóp sem er að setja upp leiksýningu sem heitir Nakin á svið. Fyrir hlé fá áhorfendur að fylgjast með generalprufu sýningarinnar, síðustu æfingu fyrir frumsýningu. Við fylgjum leikhópnum svo í sýningarferð um allt landið og fylgjumst með sýningum á Akureyri og Vík í Mýrdal. Áhorfendur fá annað sjónarhorn eftir hlé og fylgjast þá með því sem gerist baksviðs meðan á sýningunni stendur. Skemmtileg tilbreyting fyrir áhorfendur að fá smjörþefinn af því hvernig leikhúslífið virkar á bakvið tjöldin. Farsinn Allir á svið er bráðskemmtilegur farsi þar sem allt fer úrskeiðis, bæði á sviðinu og utan þess.
Leikarar sýningarinnar eru sumir að stíga sín fyrstu skref með Leikfélagi Keflavíkur en það eru einnig vanir leikarar á sviðinu og jafnvel einhverjir að koma til baka eftir margra ára fjarveru. Það sem er stórmerkilegt við þessa uppfærslu leikfélagsins er að í fyrsta skipti eru tveir leikarar að deila með sér einu hlutverki. Þetta er jafnframt ein stærsta og flottasta en jafnframt flóknasta leikmynd sem Leikfélag Keflavíkur hefur smíðað fyrir leiksýningu en þið þurfið bara að mæta ef þið viljið sjá hana.
Styðjum við menningu á Suðurnesjum og mætum í Frumleikhúsið. Miðasala á tix.is