Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Annar hluti: Hvað eru krakkarnir að lesa?
Arnar Geir Halldórsson nemandi í 7. bekk í Heiðarskóla
Sunnudagur 16. mars 2014 kl. 10:07

Annar hluti: Hvað eru krakkarnir að lesa?

Fleiri lestrarunnendur frá Suðurnesjum

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram, í sautjánda sinn í Reykjanesbæ, í bíósal Duushúsa á fimmtudaginn sl. Keppendur frá sex grunnskólum í Reykjanesbæ og grunnskólanum í Sandgerði tóku þátt í keppninni. Við tókum nokkra lestrarhesta tali sem tóku þátt í keppninni og spurðum þá út í hvað þeir væru að lesa, en nemendurnir eru allir í 7. bekk. Það má með sanni segja að krakkarnir séu dugleg að lesa og áhugasvið þeirra sé vítt.

Ævintýri í anda Harry Potter

Arnar Geir Halldórsson er nemandi í 7. bekk í Heiðarskóla. Hann er kominn á bólakaf í bókaflokkinn „Leyndardómurinn um hinn ódauðlega Nicolas Flamel“ sem eru ævintýrasögur í anda Harry Potter en persónulega finnst honum þessar betri. Það sem Arnari finnst skemmtilegt við þessar bækur er að raunverulegar persónur eru notaðar í sögunni svo sem eins og William Shakespeare, Jóhanna af Örk og Billy the Kid. Arnar Geir mælir með þessum bókaflokki fyrir alla sem hafa gaman af ævintýrum. Hann var að klára bók nr. 3, Seiðkonuna, og hún brást ekki fremur en hinar sem hann hefur lesið og hann bíður spenntur eftir að geta byrjað á bók nr. 4. Arnar Geir hefur líka mjög gaman af því að lesa alls kyns fræðslu- og staðreyndabækur eins og t.d. Ótrúlegt en satt, Heimsmetabækur Guinness og stundum Lifandi vísindi.

Fótbolti og fluguveiði

Lestraráhugi Andra Þórs Árnasonar úr Holtaskóla tengist mikið áhugamálum hans. Andri æfir fótbolta og les allar fótboltabækur sem koma út, bæði skáldsögur og fræðibækur. Hann er búinn að lesa þessar nýjustu eins og Rangstæður í Reykjavík og Meistari Tumi. Þá les hann mikið af veiðibókum og í uppáhaldi er bókin Fluguveiðiráð sem fjallar um allt er við kemur fluguveiði. Síðasta bók sem Andri las heitir Með hættuna á hælunum. Þetta er spennusaga og fjallar um strák og stelpu sem búa yfir fjörugu ímyndunarafli og rannsaka grunsamleg sakamál.

 

Ætlar að bíða með unglingabækurnar

Júlía Mjöll Jensdóttir úr Myllubakkaskóla er að lesa sína fyrstu unglingabók núna en hún heitir Flatbrjósta nunna og er eftir Keflvíkinginn Bryndísi Jónu Magnúsdóttur. Júlíu finnst hún skemmtileg en ætlar að bíða með að lesa fleiri slíkar bækur þar til hún verður aðeins eldri.  Júlíu Mjöll finnst gaman að lesa og hún les mikið. Uppáhalds rithöfundarnir hennar eru Sigrún Eldjárn og Kristín Helga Gunnarsdóttir.

 

Hefur húmorinn í lagi

Daníel Ragnar Luid Guðmundsson úr Háaleitisskóla hefur mestan áhuga á að lesa sögur sem eru fullar af húmor eins og t.d Kafteinn Ofurbrók og Amma Glæpon.
Núna er Daníel að lesa seríuna um Elías. Daníel er íslenskur í föðurætt og færeyskur í móðurætt, og er því tvítyngdur. Í frítíma sínum finnst honum gaman að tölvuleikjum eins og Skyrim, Team fortress, Wow og að vera með vinum sínum.


Á það til að gleyma sér á Wikipedia

Júlíus Viggó Ólafsson úr Grunnskólanum í Sandgerði var að klára Star wars - tales from the Mos Eisley cantina. Þetta er smásagnabók um verur sem eru staðsettar á Mos Eisley cantina í fyrstu Star wars myndinni sem heitir New hope. Annars hefur Júlíus Viggó  mjög gaman af Hringadróttinssögu og allt sem gerist í Miðgarði. Júlíus er  mikið fyrir að lesa tímarit og gleymir sér oft við að lesa greinar á Wikipedia, til að fræðast um alls konar hluti og atburði.

Hrollvekjur heilla

Thómas Þorsteinsson úr Grunnskólanum í Sandgerði var að klára að lesa nýjustu bókina um ævintýri Kidda klaufa, en hann hefur lesið allar bækurnar um hann. Skemmtilegast þykir Thómasi þó að lesa bækur sem eru spennandi og með hrollvekjuívafi.

 

 

Hér má sjá fleiri viðtöl við þá sem tóku þátt í keppninni: Hvað eru krakkarnir að lesa?